NegrastrákarnirÍ kjölfar furðulegrar endurútgáfu á gamalli bók sem kallast Tíu litlir negrastrákar hafa ýmsir mótmælt því harðlega að hér sé rasismi á ferðinni. Að mati þessa fólks vilja þeir sem gagnrýna endurútgáfuna helst stunda ritskoðun og bókabrennur. Já, er það ekki klassísk umræðuaðferð að forðast eins og heitan eldinn að tala um kjarna málsins?

D.W. Griffith átti ekki von á gagnrýni vegna rasisma þegar hann gerði The Birth of a Nation, sem upphaflega hét The Klansman, árið 1915. Fyrir honum vakti að segja epíska sögu um hörmungar borgarastyrjaldarinnar í Bandaríkjunum samkvæmt þeirri algengu söguskoðun þess tíma að göfugir hvítir suðurríkjamenn hefðu verið órétti beittir af norðanmönnum og ágjörnum blökkumönnum sem vildu færa skörina uppá bekkinn.

Í myndinni er það hinn huggulegi félagsskapur Ku Klux Klan, sem kemur á röð og reglu þegar blökkumenn eru farnir að vilja fullmikið uppá dekk. Myndin er talin marka upphafið að kvikmyndum í fullri lengd og því um margt merkileg í sögulegu ljósi. Hún var geysilega vinsæl á sínum tíma en hlaut jafnframt harkalega gagnrýni. Fyrir nútímamanninn er hún auðvitað með ólíkindum. Hinn kunni bandaríski kvikmyndagagnrýnandi Roger Ebert orðaði það eitt sinn svo að þetta væri ekki vond mynd vegna þess að hún styddi hið illa. Líkt og Sigur viljans eftir Leni Riefenstahl væri þetta frábær mynd sem styddi hið illa.

Kannski er erfitt að bera saman gerðir hryðjuverkasamtakanna Ku Klux Klan og að því er virðist hinar saklausu barnagælur Tíu litlir negrastrákar. En er það svo? Er hægt að horfa framhjá því að þessi bók á sér sögulegar rætur í viðhorfum sem lýsa mikilli mannfyrirlitningu? Erum við á einhvern hátt bara stikkfrí frá því?

Í þessu sambandi rifjaðist upp fyrir mér atriði úr hinni frábæru dönsku dogma-mynd Festen þar sem annar svipaður texti er notaður í svipuðu samhengi af einni miður geðslegri persónu myndarinnar.

Ég er að tala um elsta bróðurinn í hinni hrjáðu fjölskyldu. Í byrjun myndarinnar kemst hann að því að systir hans á blökkumann fyrir kærasta. Hann reynir að varpa honum á dyr en þegar það gengur ekki hefur hann upp raust sína í veislunni og það fer ekkert á milli mála að hverjum söngurinn beinist né til hvers. Það óhugnanlega er að gestirnir byrja að taka hressilega undir, eins og ekkert væri sjálfsagðara.

Nú má spyrja sig; taka gestirnir undir án þess að gera sér grein fyrir málavöxtum eða vita þeir algjörlega hvað klukkan slær og finnst það bara allt í lagi?

Og í framhaldinu; nú þegar Ísland er ekki lengur einsleitt samfélag heldur fjölþjóðlegt, hver er munurinn á hegðun veislugestanna og því að endurútgefa söguna um negrastrákana og verja uppátækið með því að afneita rasískum uppruna hennar?

(Pistill í 07/08 11.10.07)