Í ísraelsku myndinni Heimsókn hljómsveitarinnar, sem nú er sýnd á kvikmyndahátíð, segir af egypskri lögregluhljómsveit sem er á leið á menningarhátíð í ísraelskum bæ. Eftir að hafa séð myndina var ég farinn að trúa því að til sé staður og stund þar sem hið ómögulega getur gerst, svo ég spurði Eran Kolirin, leikstjóra myndarinnar, hvort þetta gæti átt sér stað í hans heimalandi hér og nú.

Hann aftók það með öllu. En það skiptir engu máli sagði hann, mér er alveg sama um raunveruleikann.

Og það er nefnilega kjarni málsins. Kvikmyndir hafa ekkert endilega með raunveruleikann að gera. „Kvikmyndin er sannleikur 24 ramma á sekúndu“ sagði franski kvikmyndaleikstjórinn Jean-Luc Godard einhverntímann, en þessi ögrandi staðhæfing er ekki öll þar sem hún er séð. Eða eiga ekki kvikmyndir fyrst og fremst erindi við það sem býr í hjartanu, drauma okkar og martraðir, vonir okkar og ótta?

Og verður þá ekki krafan um einhverskonar sögulega sannsögli í kvikmyndum stundum svolítið annkanaleg?

Ég er að ræða þetta vegna þess að ég sá loksins hina umdeildu mynd 300 á dögunum. 300 er hin besta skemmtun, blóðug, grimm og full af ægilegri fegurð, glórulausum hetjuskap og fleygum ummælum.

Hún byggir lauslega á orrustunni við Laugarskarð í Grikklandi, árið 480 fyrir Krist, þegar fámennur herflokkur spartverja hélt aftur af risavöxnum innrásarher Persa.

Eins og títt er um myndir sem byggðar eru á raunverulegum atburðum, urðu margir til að lýsa vandlætingu sinni á frjálslegri meðferð sögulegra heimilda. Sjálfsagt er það flest satt og rétt, en kemur bara málinu alls ekkert við. Hvaðan kemur mönnum sú hugmynd að kvikmyndir eigi að gegna einhverskonar sagnfræðilegu uppfræðsluhlutverki gagnvart fávísum almúganum?

Nei, 300 er ekki sannsöguleg heimild og var aldrei ætlað að vera það, ekki frekar en Bambi er söguleg heimild um lífið í skóginum eða Roy Rogers sannferðug lýsing á lífinu í villta vestrinu. Þetta er ÞRJÚBÍÓ og slíkar myndir krefjast þess eins að maður kasti vantrúnni og gangi inní heiminn.

Og þá gerist stundum það að maður fer að trúa því að til sé staður og stund þar sem hið ómögulega getur gerst. Þó ekki væri nema í níutíu mínútur eða svo…

(Pistill fluttur í 07/08 bíó leikhús 4.10.07)