Kannski væri best ef engar kvikmyndahátíðir væru til. Eða eins og Lennon sagði: „Imagine there’s no heaven“. Því kvikmyndahátíðir eru himnasending – og þá finnst manni nauðsynlegt að missa ekki af neinu, en er stöðugt að velta því fyrir sér hvort maður sé ekki í rauninni að missa af öllu.
Margir kvikmyndaunnendur – sem reyndar kallast nú yfirleitt nördar – eiga það sameiginlegt með ýmsum bókaormum og músikpælurum að vilja helst uppgötva gersemarnar í gegnum grams og grúsk.

En er ekki kvikmyndahátíð einmitt þetta? Fyrirheit um óvæntar uppgötvanir? Dagskrá Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík, sem hefst í kvöld, er enda skipt upp í flokka sem bera heiti á borð við Vitranir, Sjónarrönd og Fyrir opnu hafi.

Og hvað er svo á bakvið ystu sjónarrönd? Jú, svona rétt til að gára yfirborðið má til dæmis nefna fjölskyldudramað Útlegðina, aðra mynd rússneska leikstjórans Andrei Zvyagintsev, sem gerði hina frábæru Endurkomu fyrir fjórum árum og hlaut þá meðal annars Gulljónið í Feneyjum.

Sænska leikkonan Marie Bonnevie leikur annað aðalhlutverkið í Útlegðinni en hún er einmitt gestur hátíðarinnar vegna frumsýningar Emblu eftir Hrafn Gunnlaugsson. Embla er endurklippt útgáfa leikstjórans af bíómyndinni um Hvíta víkinginn, en þar lék Bonnevie sitt fyrsta hlutverk.

Þá hafa Rúmenar verið að gera afar spennandi myndir á síðustu árum og Christian Mungiu hlaut Gullpálmann á kvikmyndahátíðinni í Cannes í vor fyrir 4 mánuði, 3 vikur og 2 daga, um hremmingar tveggja stúlkna sem kaupa ólöglega fóstureyðingu á síðustu dögum Cesescus.

Ég er líka spenntur að sjá Tómar, nýjustu mynd hins tékkneska Jan Sverak. Þetta er lokamyndin í þríleik hans og föður hans, Zdenek Sverak, sem lék svo eftirminnilega í óskarsverðlaunamynd þeirra feðga, Kolya, sem meðal annars lagði Ísland að fótum sér á kvikmyndahátíð fyrir tíu árum. Þessi mynd hefur verið geysivinsæl í heimalandinu og hlaut meðal annars áhorfendaverðlaunin á kvikmyndahátíðinni í Karlovy Vary í sumar.

Það er líka óhætt að mæla með fyrstu mynd danska leikstjórans Peter Schonau Fog, Listinni að gráta í kór. Þetta er saga um fjölskyldu í rúst vegna helsjúks föður, harmræn og skopleg í senn.

Annar heiðursgesta hátíðarinnar í ár er finnski meistarinn Aki Kaurismaki og verður hinn svokallaði Finnlandsþríleikur hans sýndur á hátíðinni. Kaurismaki er endalaus uppspretta tregablandinnar kátínu og mér skilst að síðasta verkið í þríleiknum, Ljós í húminu, sé engu síðra hinum tveimur.

Ég gára bara yfirborðið, við erum líka að tala um 87 myndir frá 30 löndum á 10 dögum – en ég get ekki látið staðar numið án þess að minnast á yfirlitssýninguna á myndum Rainer Werner Fassbinder. Þessi skærasta raketta þýskra kvikmynda skaust uppá himinhvolfið um miðjan sjöunda áratuginn og sprakk með látum í byrjun þess níunda. Á þessum fjórtán árum gerði hann rúmlega 40 kvikmyndir og helmingurinn tóm snilld. Ekki missa af Beiskum tárum Petru von Kant, Lolu, Lili Marleen og Hjónabandi Mariu Braun þegar þú leggur á djúpið.

Gleðilega köfun.

_________________________________________

(Pistill fluttur í 07/08 bíó leikhús 27.9.07)