Það er nú svo að Íslendingar eru sérlega sólgnir í kvikmyndir. Að meðaltali sér hver einasti Íslendingur um 15 myndir á ári og þannig hefur það verið um áratugaskeið. Svona tölur þekkjast vart annarsstaðar.

Hvað veldur þessum kvikmyndaáhuga okkar? Er það fásinnið? Eru kvikmyndirnar einhverskonar mótefni gegn löngum dimmum vetrarnóttum?

Kannski hafa kvikmyndirnar verið okkur glugginn að heiminum. En þó að Hollywood sjái okkur fyrir stórum skammti af hverskyns skemmtun – og stundum harla góðri – er ekki hægt að horfa framhjá því að Íslendingar vilja sjá íslenskar myndir.

Um það vitnar ekki aðeins hin mikla aðsókn á Mýrina í fyrra, eða á Astrópíu þessa dagana, því að íslensk mynd fær að meðaltali 6% þjóðarinnar í bíó, aftur miklu hærra hlutfall en almennt gengur og gerist annarsstaðar. Vissulega fá sumar íslenskar myndir fáa gesti en svo eru aðrar sem leika sér að því að slá út stærstu smellina frá Hollywood.

Já, íslenskar kvikmyndir krauma og sjóða og því ber að fagna. Það er ekki bara á eldfjallaeyjunni sem áhorfendur flykkjast á íslenskar myndir. Þær eru orðnar öflug útflutningsvara líkt og íslensk tónlist og íslenskur matur og laða að sér gesti sem aldrei fyrr.

Nei, þetta er ekki fréttatilkynning frá Kvikmyndamiðstöð, heldur má lesa þetta á vef alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Kaupmannahöfn sem hefst í kvöld. Þar verða Börn, Foreldrar og Mýrin, en auk þess er Köld slóð sýnd á sérstökum bíódögum í Menningarhúsinu við Norðurbryggju síðar í haust, um svipað leyti og Börn og Foreldrar verða sýndar á almennum sýningum í dönskum kvikmyndahúsum.

Semsagt; fjórar íslenskar myndir til sýnis í Danmörku þetta haustið og hefði einhverntíma þótt tíðindi. Þetta kemur í kjölfar velgengni Mýrinnar á hátíðum beggja vegna Atlantshafs undanfarna mánuði, en fyrir skömmu var gengið frá sölu myndarinnar á Bandaríkjamarkað.

Íslenskar kvikmyndir eru semsagt farnar að syngja í hinum alþjóðlega kvikmyndakór – sem einmitt er á söngferðalagi um þessar mundir og næsta stopp er Reykjavík Ísland. Eftir slétta viku hefst hér Alþjóðleg kvikmyndahátíð og þá verður allt með öðrum blæ. Hundrað myndir á tíu dögum og vandi er að velja. Get ekki beðið eftir að sjá The Band’s Visit frá Ísrael eða 4 mánuði, 3 vikur og tvo daga sem vann Gullpálmann í Cannes í vor – hvað þá yfirlitssýninguna á myndum Fassbinders; Hjónaband Mariu Braun er ein af þessum myndum sem allir verða að sjá áður en yfir lýkur…

Já þetta er erfitt starf, en einhver verður að sinna því. Sjáumst í myrkrinu.
___________________

(Pistill í 07/08 bíó leikhús 20. sept. 2007)