Það er ótrúlegt tilviljun að tveir meistarar kvikmyndanna, Ingmar Bergman og Michelangelo Antonioni, skuli látast á sama deginum og freistandi að líta á það sem einhverskonar kaflaskil – ekki síst vegna þess að nú fer þeim mjög fækkandi leikstjórunum sem stóðu uppúr á blómaskeiði evrópskra kvikmynda á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar (aðeins Godard, Chabrol og Resnais eftir ef mér skjátlast ekki). Um hálf öld er liðin síðan báðir hófu að setja mark sitt á kvikmyndasöguna og báða verður að telja í hópi þeirra sem sýndu heiminum áþreifanlega fram á dýpt og þunga kvikmyndarinnar sem listræns tjáningarforms. Þegar litið er yfir höfundarverk þeirra verður afstæðishyggja í listum einhvernvegin innantóm afstaða. Þeir gerðu einfaldlega betri myndir, köfuðu dýpra, námu ný lönd, buðu áhorfandanum uppá nýja reynslu. Með þessu er ekki verið að halda fram að allar myndir þeirra hafi heppnast vel – langt í frá – og enn síður að þeir hafi verið meðal þeirra fyrstu sem unnu listræn afrek í kvikmyndum. En hjá því verður ekki komist að viðurkenna að framlag þessara tveggja manna til kvikmyndarinnar er stærra og meira en velflestra annarra.

“En hvað verður þá um Jacqueline og börnin?”, svo vitnað sé í kunna bók. Hugmyndin um hið beina og áríðandi erindi kvikmyndanna við mótun samtíma síns var miðlæg í menningu Vesturlanda um skeið, ekki síst fyrir tilstilli mynda Bergman og Antonioni auk fleirri, en hefur á síðasta aldarfjórðungi eða svo vikið útí jaðarinn.  Í hinni frægu ritgerð sinni A Century of Cinema frá 1995, harmar Susan Sontag þessa þróun og talar um endalok kvikmyndarinnar í því sambandi. Um leið veltir hún fyrir sér þeim möguleika að eftilvill sé vandamálið fólgið í dauða cinefílíunnar eða þess sem kannski má kalla bíóhneigð á íslensku – þeirrar ástar sem kvikmyndin blæs fólki í brjóst. “Hver listgrein á sér sína öfgafullu fylgismenn” segir hún. “Ástin sem kvikmyndin blés fólki í brjóst var hinsvegar sérstök. Hún var sprottin af þeirri sannfæringu að kvikmyndin væri listform ólíkt öllum öðrum: afar nútímalegt; sérlega aðgengilegt; ljóðrænt og dularfullt og erótískt og siðferðilegt – allt í senn. Kvikmyndin átti sér spámenn. (Eins og trúarbrögð). Kvikmyndin var krossför. Fyrir bíóhneigða náðu kvikmyndirnar utan um allt. Kvikmyndin var bæði bókin um listina og bókin um lífið.”

Ég held að við séum enn nokkur sem hugsum svona, en þessi viðhorf eru vissulega ekki eins áberandi og kannski áður. Sjálfur var ég kornungur þegar bíóhneigðin greip mig, en það var á áttunda áratugnum og þá voru þessar hugmyndir enn sterkar í kúltúrnum en engu að síður á hægu undanhaldi, þó að maður gerði sér að sjálfsögðu enga grein fyrir því á þeim tíma. Hugmyndinni um mikilvægi kvikmyndanna var því snemma plantað í mig og ég hef aldrei losnað við hana að neinu ráði síðan, þó að vissulega hafi runnið upp fyrir mér að konseptið sé alls ekki eins sjálfsagt meðal almennings.

Undanhald hugmyndarinnar um mikilvægi kvikmyndarinnar getur vissulega verið deprimerandi tilhugsun á stundum. Vera má að það sé glatað stríð en einnig er þarft að hafa í huga að hér er um eilífðarmál að ræða og nokkrir áratugir til eða frá skipta litlu máli í hinu stóra samhengi… Nefni þetta með vísun í pistil góðkunningja míns Egils Helgasonar, sem í stuttri færslu um tilgerðina í Antonioni klikkir út með setningunni “En þetta var þó allavega tími þegar kvikmyndir töldust ennþá list.”

Egill var eitt sinn þungt haldinn af bíóhneigð og skrifaði af mikilli ástríðu um bíómyndir. Ég held að ástríðan sé þarna ennþá þó að djúpt kunni að virðast á henni stundum…

Aðalgagnrýnandi New York Times, A.O. Scott, kemur inná þetta sama í hugleiðingu sinni um meistarana tvo og segir í lokin: “Að öllu þessu gefnu gæti verið erfitt fyrir þann sem ekki var uppi á þessum tíma – og hefur aldrei þekkt kvikmyndasöguna án tilvistar La Notte – að gera sér grein fyrir þeirri hetjulegu stöðu sem veitt var þeim Antonioni og Bergman fyrir fjörtíu árum. Ég trúi því ekki endilega að kvikmyndalistinni hafi hnignað síðan þá (ég myndi hætta í starfi mínu ef svo væri) en það virðist ljóst að hið menningarlega andrúmsloft sem gerði mögulegt að hylla kvikmyndagerðarmenn sem meiriháttar listamenn hefur horfið að eilífu. Myndirnar sjálfar er allt sem eftir stendur.”

Kannski, kannski ekki. Meira að segja Sontag, í hinni ástríðuþrungnu en bölsýnu ritgerð sinni, skilur örlitla vonarglætu eftir í lokin handa döprum bíóhjörtum: “Eins og búast mátti við hefur ást á bíómyndum dvínað. Fólk hefur enn gaman af að fara í bíó og sumum er enn annt um og búast við einhverju einstöku af kvikmynd. Og enn er verið að gera dásamlegar kvikmyndir (…) En þú finnur varla lengur, sérstaklega ekki meðal ungs fólks, þessa sérstöku bíóhneigðar ást á kvikmyndum, sem er ekki bara ást heldur tiltekin smekkur á myndum (byggður á mikilli þörf fyrir að upplifa og endurupplifa dýrðardaga kvikmyndarinnar). Bíóhneigðinni sjálfri hefur verið stillt upp sem einhverju gamaldags, úr sér gengnu og snobbuðu. Því að bíóhneigð gefur til kynna að kvikmyndir séu einstök og töfrandi reynsla sem ekki verði endurtekin. Bíóhneigðin segir okkur að endurgerð Hollywood af A Bout de Souffle eftir Godard, geti ekki verið eins góð og frummyndin. Bíóhneigð á ekkert erindi á öld iðnaðarmynda. Bíóhneigð, með sínum fjölbreytilegu ástríðum, getur ekki annað en haldið fram þeirri hugmynd að kvikmyndin sé fyrst og fremst ljóðrænt viðfang; getur ekki annað en hvatt þá sem eru utan kvikmyndaiðnaðarins, eins og myndlistarmenn og rithöfunda, að gera myndir líka. Það er nákvæmlega þessi hugmynd sem hefur verið kveðin í kútinn. Ef bíóhneigð er dauð eru kvikmyndirnar dauðar líka… og skiptir þá engu máli hversu margar myndir, jafnvel mjög góðar, verða gerðar áfram. Ef kvikmyndin á að rísa upp aftur mun það aðeins gerast í gegnum fæðingu nýrrar tegundar af bíó-ást.”