Kosningaúrslitin eru óttalegt moð – eins og markalaust jafntefli eftir dauflegan fótboltaleik. Engin í raun glaður með niðurstöðuna. Vissulega mega Sjálfstæðismenn vel við una, sérstaklega Þorgerður Katrín í Kraganum, en að stjórnin skuli rétt lafa er auðvitað ekki skemmtilegt fyrir þá. Það er einfaldlega meira fjör að hafa þetta dálítið afgerandi, á hvorn veginn. Samfylkingin bjargaði naumlega í horn, Vg vann miklu minna en þeir vonuðu, Framsókn er í rúst, Frjálslyndir halda áfram að vera smáflokkur sem skiptir ekki máli og Íslandshreyfingin gerði ekkert nema spilla fyrir stjórnarandstöðunni – sem var ábyggilega ekki ætlunin. Og varla eru þeir Árni Johnsen og Björn Bjarnason mjög kátir. Mómentið í fréttum Stöðvar 2 í gær þegar Geir Haarde kom fagnandi á þingflokksfund og heilsaði öllum nema Árna, sagði sína sögu. Hvaða hvaða, þvílík mæða… Hvað þarf til að prúðmennið Geir geri svona fyrir framan sjónvarpsmyndavélarnar?

Jón Sigurðsson er kannski mesti tapari kosninganna, en um leið er hann einhvernveginn flottastur. Seint verð ég framsóknarmaður, en ég hef haft gaman af Jóni. Alveg síðan hann steig fram á sjónarsviðið og vandaði um fyrir einhverjum óreyndum fréttamanninum. “Hver maður verður að gera skyldu sína, þú líka ef þú ert beðinn um það” sagði hann við skilningssljóan fréttasnápinn, sem fattaði engan veginn snilldina.

Kosturinn við Jón er að hann er hreinn og beinn og sneiðir yfirleitt hjá populisma. Þá hefur hann átoritet sem hæfir fyrrverandi skólastjóra og auk þess skemmtilega fornt og kjarnyrt tungutak. Slíkir menn eru ekki á eftir ódýrum vinsældum. Maður er kannski ekki endilega sammála honum um ýmislegt en það er ekki erfitt að bera virðingu fyrir honum.

Jón er auðvitað afskaplega jarðtengdur og pragmatískur pólitíkus eins og títt er um framsóknarmenn og þeir eru vanir að vera við völd. Held að þeir skilji ekki alveg þetta konsept að vera í stjórnarandstöðu og það þvælist svolítið fyrir þeim þrátt fyrir nauðsyn þess að tjilla næstu fjögur árin. Held þó að þeir muni átta sig og þá ætti Geir að geta blikkað næst sætustu stelpuna á ballinu. Hvort Ingibjörg Sólrún geri sama gagn verður hinsvegar að koma í ljós.

Eitt gæti þó sett strik í reikninginn og þannig tryggt áframhaldandi líf stjórnarinnar. Hjónabandið hefur varað í tólf ár og í raun gengið mjög vel. Ákveðinn kærleikur, samheldni og loyalitet hefur svifið yfir samstarfinu. Það hlýtur því að vera sálrænt átak fyrir báða aðila að skilja, sérstaklega þar sem mögulegt er að halda bara áfram eins og ekkert hafi í skorist. Það er oftast auðveldara að halda í horfinu en að breyta til, jafnvel þó að vísbendingar um skerin framundan blasi við. Og þá er ég ekki endilega að tala um aðrar sætar stelpur. Eða segir ekki einhversstaðar að fyrsta regla í pólitík gangi útá það að ef þú ert í vafa, ekki gera neitt?