Eldur � ReichstagHún er hugguleg, eða hitt þó heldur, hugleiðing Naomi Wolf í The Guardian í dag. Þar veltir hún því fyrir sér hvort það geti verið að Bandaríkin séu á öruggri siglingu til fasisma. Hún bendir á að það sé erfitt að byggja upp og viðhalda lýðræði en afar auðvelt að afnema það. Til séu skýrir leiðarvísar um hvernig megi gera það og þeir samanstandi af ákveðnum aðgerðum sem jafnan eru framkvæmdar þegar einræðisstjórn leggur niður lýðræði í tilteknu landi eða finnur þörf hjá sér til að kveða niður andstöðu. Hún segir jafnframt að öllum þessum aðgerðum hafi verið hrint í framkvæmd vestanhafs á undanförnum árum með einum eða öðrum hætti.

Í tíu stuttum en hnitmiðuðum köflum lýsir hún aðgerðaáætluninni. Kaflaheitin eru hvert öðru óhuggulegra og Wolf lýsir því hvernig hver og einn þáttur hefur komið til framkvæmda eftir 11. september harmleikinn, að frumkvæði ríkisvaldsins og pólitískra öfgamanna til hægri, helstu stuðningsmanna Bush-stjórnarinnar.

Kaflarnir tíu eru:

  1. Sköpun skelfilegs innri og ytri óvinar 
  2. Fangabúðum komið á fót
  3. Stofnun ofbeldissveita
  4. Uppsetning eftirlitskerfis með þegnunum
  5. Félagasamtök ofsótt 
  6. Tilviljanakenndar handtökur og sleppingar
  7. Aðgerðum beint að lykilfólki
  8. Stjórn á fjölmiðlum
  9. Andóf jafngildir landráði
  10. Afnám réttarríkis

Vissulega fróðleg lesning og umhugsunarverð. Wolf gengur reyndar ekki svo langt að kalla Bandaríkin hreint og klárt fasistaríki, enda fulldjúpt í árina tekið. Hinsvegar bendir hún á mörg dæmi um aðgerðir í þessa veru og að stefnan hafi verið tekin í þessa átt.

Hún segir m.a.:

Auðvitað munu Bandaríkin ekki upplifa algjört og ofbeldisfullt afnám stjórnkerfisins, líkt og fylgdi yfirtöku Mussolinis í Róm eða meðferð Hitlers á pólitískum föngum. Til þess eru lýðræðishefðir okkar of inngrónar og sjálfstæði hers og dómskerfis of mikið.

Frekar er líklegt að lýðræðisþróun okkar verði stöðvuð smám saman.

Það eru mistök að ætla að upphaf fasískrar þróunar markist af gaddavír sem ber við himinn. Í upphafi lítur allt eðlilega út á yfirboðinu; bændur héldu uppskeruhátíðir í Calabria 1922; í Berlín fór fólkið í búðir og bíó 1931. Í upphafi er hryllingurinn alltaf annarsstaðar eins og WH Auden orðar það – á meðan einhver er pyntaður, skauta börnin og skipin sigla: “hundar lifa sínu hundalífi … Hve allt snýr burt / þægilega frá hörmungunum.”

Á meðan Bandaríkjamenn snúa sér þægilega frá, uppteknir við verslun á netinu eða Ameríska Stjörnuleit, er verið að grafa undan grunnstoðum lýðræðis. Eitthvað mikið hefur breyst sem veikir okkur sem aldrei fyrr: lýðræðisferlar okkar, sjálfstæðir dómstólar og frjálsir fjölmiðlar vinna nú út frá þeim forsendum að við erum “í stríði”, í “löngu stríði” – stríði án enda, á vígvelli sem afmarkast af gervallri plánetunni, á forsendum sem veita forsetanum – án þess að bandarískir borgarar hafi gert sér grein fyrir því enn – sjálfdæmi um frelsi borgaranna eða langa einangrunarvist.

Edmund Burke orðaði þetta einhverntíma svona:

The only thing necessary for the triumph of evil is for good men to do nothing.

Ég á þessa þörfu áminningu innrammaða einhversstaðar og vil endilega hengja hana uppá vegg.

Ég hef bara ekki komið því í verk ennþá.

Greinina má lesa í heild sinni hér.