Endurnýjaði kynnin við Nágrannakonu Truffauts (La Femme d’à côté, 1981) og það gladdi mig að myndin er enn í dag jafn fjári góð – ef ekki betri. Þetta er myndin sem gerði Fanny Ardant að stjörnu og þvílík innkoma. Gerard Depardieu ekki síðri. Þetta er mynd um fullorðna og fyrir fullorðna, alveg afsökunarlaust. Allt er með kyrrum kjörum í litlu sveitaþorpi í Frakklandi þar sem Depardieu unir sér með konu og barni, þar til hjón flytja í næsta hús. Í ljós kemur að konan (Ardant) og Depardieu voru elskendur fyrir mörgum árum og skildu með látum. Að sjálfsögðu snúa þau sér umsvifalaust að því að eyðileggja líf sitt og maka sinna með því að taka aftur upp samband. Þó helst alltaf þannig að annað vill hitt meira og svo snýst það við, þar til allt er komið í hinn versta hnút og búið að hlaupa með allar hugsanlegar tilfinningar í gönur. Dásamlegt að horfa uppá þetta og sjá hvað Truffaut leyfir sér. Kannski er það tungumálið. Einhvernveginn held ég að jafn ástríðufullar yfirlýsingar og stundum er lagðar í munn aðalpersónanna yrðu sem argasta grín á íslensku. En franskan er tungumál drauma og ástríðna og allt gerir þetta sig unaðslega.

Er á smá Truffaut spretti. Meira síðar.

Gerard Depardieu og Fanny Ardant í Nágrannakonu Truffauts.