Meet the Robinsons er nýjasta Disney teiknimyndin og hér á landi er hún sýnd með þrívíddartækni. Þetta er jafnframt fyrsta myndin sem höfuðsnillingurinn John Lasseter frá Pixar hefur umsjón með hjá Disney, eftir að risinn keypti þá gullgæs. Lasseter mun þó hafa komið að verkinu hálfkláruðu og látið endurvinna hana að stórum hluta. Pixar-touchið leynir sér ekki, myndin er litrík, lífleg og uppáfinndingasöm hvað myndræna úrvinnslu varðar. Um leið er óhætt að segja að þrívíddarelementið svínvirkar. Sú tilfinning að vera staddur inní myndinni kemst vel til skila. Ýmis minni eru sótt í Back to the Future seríuna, með viðkomu í Glæstum vonum Dickens og teiknimyndaseríunni Þotufólkið (The Jetsons). Myndin líður þó nokkuð fyrir tiltölulega dauflega karaktersköpun og fær þriðju stjörnuna fyrst og fremst fyrir hina skemmtilegu þrívíddarupplifun. Mér skilst að Hollywood ætli að koma með skriðu af þrívíddarmyndum á næstunni og verður fróðlegt að sjá hvernig til tekst þegar um stórar hasarmyndir verður að ræða.