Kevin Smith er kannski ekki mesta kvikmyndaséní Ameríkana, en fáir skrifa skemmtilegri samtöl, sem gjarnan eru afskaplega óviðeigandi og ágætis mótefni gegn hinni þreytandi en vel meinandi rétttrúnaðarhyggju. Smith er skáld iðjuleysingjanna, fólksins sem hefur allt til að bera, lifir í allsnægtaþjóðfélaginu en finnur sér ekki farveg í kapphlaupinu – né eiginlega nokkru öðru ef því er að skipta. Chasing Amy er hans besta mynd hingað til en þessi er ekki síður fín. Líkt og nafnið segir til um er þetta framhald af myndinni sem skóp nafn hans. Sú var gerð fyrir túkall í svart/hvítu en telst einn helsti íkon bandarískra “independent” mynda. Fjórmenningarnir Dante, Randall, Silent Bob og Jay eru allir mættir hér aftur, tíu árum eldri en ekkert endilega vitrari. Samræðurnar eru á mjög lágu en meinfyndnu plani, Rosario Dawson er dásemd og svo er ótalið uppgjörið með asnanum… vel heppnuð skemmtun.