Það hefur verið athyglisvert, en um leið skelfilega fyrirsjáanlegt, að fylgjast með viðbrögðum pólitíkusa við álverskosningunni. Populistar í hópi stjórnarandstæðinga berja sér á brjóst og ofmeta niðurstöðuna meðan margir stjórnarliða keppast hver um annan þveran við að tala úrslitin niður. Er þar flest tínt til; meirihlutinn var óvenju lítill, bæjarstjórnarmeirihlutinn skaut sér undan ábyrgð með afstöðuleysi, úrslitin breyta engu því virkjað verður áfram og álver spretta upp annarsstaðar, kosningarnar voru haldnar of seint í ferlinu (hversvegna er þetta að koma fram núna?) og síðast en ekki síst; iðnaðarráðherra og formaður Framsóknar heldur því blákalt fram, þvert ofan í gildandi lög, að kosningin sé ekki bindandi.

Hér vantar eitthvað. T.d. eðlilega kurteisi og virðingu gagnvart kjósendum og lýðræðislegum niðurstöðum. Slík jarðtenging bæri vott um að þetta fólk væri sér meðvitað um að það sækir umboð sitt til almennings og starfar í hans þágu. Í staðinn fyrir að hljóma eins og fíklar í afneitun.

Rétturinn til lýðræðislegra kosninga og framkvæmd þeirrar niðurstöðu sem þær gefa, er ekki eitthvað sem gjafmildir pólitíkusar geta fært almenningi vegna þess að þeir eru í því skapinu þann daginn. Þetta eru beinar ordrur frá hinu æðsta valdi. Það getur vissulega stundum verið flókið að túlka niðurstöðurnar. En það er hlutverk stjórnmálamanna og þeim er engin vorkunn að finna út úr því.

Og hvaða tal er þetta hjá sumum þeirra um að úrslit kosninganna verði virt? En ekki hvað? Engu er líkara en að þeir hafi hugsað málið vandlega og komist að þessari niðurstöðu. Af manngæsku sinni og lýðræðisást. Hver hefur eitthvað með svona yfirlýsingar að gera? Hvaðan kemur þessum aðilum sú hugsun að þörf sé á að taka þetta sérstaklega fram? Er einhver eftirspurn eftir fullvissu frá pólitíkusum um að farið verði að lögum?

Forsætisráðherra hefur þó sýnt frekar hófsöm viðbrögð, haldið ró sinni, eins og raunar hans er yfirleitt von og vísa. Hef hann grunaðan um að vera jafnaðarmaður í hjarta sínu, eins og margir Sjálfstæðismenn.