Svo skemmtilega vildi til að RÚV ohf. tók til starfa þann 1. apríl og í tilefni dagsins birti Sjónvarpið gabbfrétt um að rýmingarsala stæði yfir á dýrgripum stofnunarinnar. Sjálfsagt hefur einhverjum svelgst á kaffinu en það er freistandi að túlka þessa uppákomu sem táknræna flórmokstursgjörð frá hendi útvarpsstjóra (sem lék aðalhlutverkið í fréttinni) og nýtt upphaf. RÚV hefur nú verið losað úr spennitreyjunni og getur farið að láta til sín taka með þeim krafti sem hæfir hlutverki þess og mikilvægi í samfélaginu. Til að það geti orðið þarf ekki aðeins að stórauka innlenda dagskrárgerð. Innihaldið er og verður lykilatriði.

Í nýundirrituðum þjónustusamningi RÚV og menntamálaráðuneytisins er þess freistað  að skilgreina almannaþjónustuhlutverkið með skýrari hætti en áður. Mikilvægasta atriði samningsins fyrir áhorfendur er skuldbindingin um aukningu innlendrar dagskrár úr 44% af kjörtíma í 65% á samningstímabilinu (úr 640 klst. í 949 klst.). Þetta er um 50% aukning en sú tala segir ekki alla söguna.

Gróf skipting efnisflokka innlendrar dagskrár á kjörtíma var 2005 með þessum hætti:

  • Fréttir, fréttatengt efni og Kastljósið: 26% – ca. 380 klst.
  • Íþróttaefni: 5% – ca. 65 klst.
  • Önnur innlend dagskrá: 13% – ca. 195 klst.
  • Alls: 44%, eða 640 klst. af 1.460

Af þessum lista má auðveldlega sjá hvar þörfin fyrir aukningu er knýjandi. Hvað fréttaefnið varðar vantar sárlega reglulegan fréttaskýringaþátt. Að öðru leyti sinnir Sjónvarpið vel fréttum, fréttatengdri umfjöllun, dægurefni og íþróttum. Þá er önnur innlend dagskrá eftir. Leikið efni, heimildamyndir, fræðsluefni, listir, skemmtidagskrár, tónlistarefni o.sv.frv. Það er aðeins 13% af heildar kjörtíma og borðliggjandi að aukningin verði mest þar.

Semsagt; til stendur að bæta ca. 309 klukkustundum við innlenda kjörtímadagskrá RÚV. Verði aukningin öll í innlendu dagskránni – utan frétta, íþrótta og Kastljóss – fer hún úr 13% í 34% af kjörtíma, sem er auðvitað miklu eðlilegra hlutfall. Það er um 150% aukning.

Það verður fróðlegt að sjá hvaða stefnu málin taka á næstu mánuðum og misserum.

Óskalisti

Hvað innlendu dagskrárgerðina varðar tel ég að sérstaka áherslu þurfi að leggja á aukningu leikins efnis af ýmsu tagi, sem og heimildamynda þar sem fjallað er um samfélagsleg og söguleg efni. Einnig vildi ég sjá meira efni á sviði vísinda og fræða, sem og umfjöllun um bókmenntir og listir.

Óskalistinn minn á sviði innlendrar dagskrárgerðar gæti t.d. litið svona út:

TAFLA 1:

Óskalisti yfir skiptingu efnisflokka innlendrar dagskrár.

EFNISLIÐIR

Klst. 2005 

% 2005* 

Klst. 2011

% 2011* 

Leikið efni**

29

2%

48

3.2%

Skemmtiefni

62

4%

110

7%

Listir

47

3%

86

6.4%

Heimildaþættir

37

3%

180

12%

Annað efni, svo sem tónlist, vísindi o.fl.

20

1%

85

5.4%

SAMTALS

195

13%

509

34%

* Hlutfall af kjörtíma (kl. 19-23).

** Leikið efni gæti t.d. skipst svona:

TAFLA 2:

Óskalisti yfir skiptingu leikins efnis í Sjónvarpinu.

LEIKIÐ EFNI – SKIPTING

Fjöldi þátta

Klst. 2011 

% 2011

Gamanþáttaröð (28 mín. pr. þáttur)

12

6

0.4%

Sápa (28 mín pr. þáttur)

12

6

0.4%

Dramaþáttur 1 (55 mín. pr. þáttur)

6

6

0.4%

Dramaþáttur 2 (55 mín. pr. þáttur)

6

6

0.4%

Stakar sjónvarpsmyndir (58 mín.)

4

4

0.3%

Leikið barnaefni (28 mín. pr. þáttur)

24

12

0.8%

Íslenskar bíómyndir

3

5

0.3%

Íslenskar stuttmyndir

10

3

0.2%

SAMTALS

89

48

3.2%

Þessi uppstilling myndi að sjálfsögðu gjörbylta íslensku sjónvarpi. Hún myndi t.d. þýða að leikið íslenskt efni yrði í Sjónvarpinu að meðaltali á þriggja daga fresti á vetrardagskrá. Auðvelt væri jafnframt að halda sama hlutfalli með endursýningum á sumardagskrá.

Töflurnar eru settar saman fyrst og fremst til vangaveltna og viðmiðunar. Kostnaður við að uppfylla þessar “óskir” er mikill. Hinsvegar væri mjög fróðlegt að sjá einhverskonar áætlanir í þessa átt frá Sjónvarpinu á næstunni, sem þannig fælu í sér ákveðna stefnumörkun og framtíðarsýn.