Álmaður (ljósm. RAX)Niðurstaða íbúakosningar í Hafnarfirði um álversstækkunina markar tímamót í tvennum skilningi. Annarsvegar hefur það gerst í fyrsta skipti að kjósendur hafa gefið stefnu stjórnvalda í ákveðnu máli gula spjaldið. Þó að formlega sé verið að kjósa um innanbæjarmál (deiliskipulag) hefur kosningin áhrif langt út fyrir það málefni. Hinsvegar sýnir hin gríðargóða þátttaka (tæp 77%) að kjósendur, hvar í flokki sem þeir standa, vilja hafa þennan háttinn á; að geta sjálfir fengið að velja með beinum hætti um stór álitamál. Íslenskir stjórnmálamenn, sem löngum hafa lagt áherslu á þingræðið (kjörsvið stjórnmálaflokkanna), standa nú frammi fyrir þeirri staðreynd að kjósendur þeirra í einu stærsta bæjarfélagi landsins, vilja beint lýðræði í auknari mæli. Þeir munu þurfa, líklega sér þvert um geð, að taka nótis af þessum skilaboðum. 

Kjörsóknin sem slík er pólitískur sigur fyrir bæjarstjórn Hafnarfjarðar, með Lúðvík Geirsson í fararbroddi. Ákvörðunin um íbúakosningu um meiriháttar mál var tekin fyrir nokkrum árum og var um hana samstaða í bæjarstjórninni. En þegar tekin var ákvörðun um að hrinda stefnunni í framkvæmd með þessum tiltekna hætti, urðu margir allt í einu til að gagnrýna það. Gamalkunnar ásakanir um að kjörnir fulltrúar væru að forðast ábyrgð, urðu áberandi. Í kjarnann gengur þessi gagnrýni út á vantraust á kjósendum, enda fólu gagnrýnisraddirnar gjarnan í sér að almenningur hefði ekki þekkingu og yfirsýn til að fjalla um málið með skynsamlegum hætti. Komið hefur í ljós að almenningur er ósammála því mati. Kjörsóknin í gær er því kjaftshögg á þá stjórnmálamenn sem telja að stjórnmálin séu of mikilvæg til að blanda fáfróðum almúganum í þau.

En það er líka athyglisvert að Lúðvík og ýmsir félagar hans, eru kannski ekkert yfir sig ánægðir með sjálfa niðurstöðuna. Þrátt fyrir að hafa haldið sig réttilega til hlés í kosningabaráttunni og uppskorið harða gagnrýni og háðsglósur fyrir að gefa ekki upp afstöðu sína, var ljóst að meirihluti Samfylkingarinnar vildi veita Álverinu brautargengi í málinu. Það gæti því reynst snúið fyrir Lúðvík að horfa framan í Rannveigu Rist á næstunni. Ég er nokkuð viss um að hún vill t.d. ekki heyra hann segja: “Tjahh… fólkið hefur talað.” Þrátt fyrir að það sé rétt.

Ákvörðunin um að halda kosningu um þetta mál lýsir því skýrt að Lúðvík og félagar hafa skilning á hinu lýðræðislega ferli; að stjórnmálamenn lúta vilja fólksins, en ekki öfugt. Það kann að vera óþægilegt og flókið á stundum, enda er stjórnmálamannanna að finna hinum lýðræðislega vilja réttan farveg. Það hefur hinsvegar engin sagt að pólitík sé auðvelt viðfangsefni. Núna reynir á menn.

Í öllu þessu má ekki gleymast að Álverið í Straumsvík er gott fyrirtæki og hefur reynst Hafnfirðingum ágætlega, sem og þjóðinni. Þetta er ekki svart/hvítt mál. Hafnfirðingar eru t.d. ekki að hafna Álverinu og það væri rangt af aðstandendum þess og stuðningsmönnum að túlka niðurstöðurnar þannig. Fyrirtækið nýtur góðra kjara og almennrar velvildar. Þegar á heildina er litið er það í eðlilegu sambandi við umhverfi sitt. Rannveig Rist er afar hæfur stjórnandi og nýtur almenns trausts. Ólíklegt verður að teljast að hún muni ekki finna farsæla leið út úr þessari stöðu.

Í heildina fór kosningabaráttan vel fram af allra hálfu. Vissulega má tína til aðfinnslur en í stórum dráttum náðu málsaðilar; fylgjendur, andstæðingar og bæjaryfirvöld, að koma upplýsingum og sjónarmiðum til fólksins. Um það snýst málið þegar upp er staðið. Álverið stóð vissulega fyrir afar öflugri og vel skipulagðri PR- og auglýsingaherferð, sem kostaði mikið fé. Á móti hafði Sól í Straumi úr litlu auglýsingafé að spila en lék af mikilli íþrótt á velli almannatengsla. Auk þess nutu samtökin víðtæks pólitísks stuðnings (eins og Álverið) og renndu sér fimlega á þeirri umhverfisverndaröldu sem nú skellur á landinu. Eina verulega fýlubomban var hin óbeina hótun Álversins um að pakka saman ef ekki yrði af samþykkt. Þetta var stór séns og líklegt að hún hafi hrætt marga til fylgis, en að sama skapi hefur hún einnig skapað andúð margra kjósenda sem kunna ekki við að láta stilla sér upp við vegg.

Kosningarnar í Hafnarfirði 31. mars eru því á ýmsan hátt vendipunktur. Þær eru líka einskonar rásmerki komandi Alþingiskosninga. Það verður afar fróðlegt að sjá hvernig umræðan mótast á næstunni í ljósi þessara tíðinda, hvaða áhrif þetta kemur til með að hafa á þingkosningarnar og næstu framtíð.