www.visir.is Um fjórðungur hafði kosið klukkan tvö
Hafnfirðingar eru mitt fólk enda borinn og barnfæddur Gaflari. “Hafnfirðingur í Reykjavík er einmana Hafnfirðingur” sagði minn gamli skólabróðir Steinn Ármann eitt sinn og þannig er mér einmitt farið þessa stundina, enda get ég ekki tekið þátt í kosningunum í dag sökum búsetu í öðru sveitarfélagi. Hinsvegar þramma ég vikulega með mínum gömlu félögum um fjörðinn og í morgun kl. 10 stóðum við Davíð Þór reiðubúnir við Þjóðkirkjuna, nokkrum metrum frá Íþróttahúsinu við Strandgötu þar sem hægt er að greiða atkvæði. Múgur og margmenni var á svæðinu og þarna drífur m.a. að gamlan kennara okkar úr Flensborg. Talið barst að innbyrðis ágreiningi Hafnfirðinga um álversstækkunina og hvort einhverjir eftirmálar yrðu af skattyrðum sem fokið hafa í hita leiksins. Kennarinn taldi það hæpið og benti á að Hafnfirðingar væru alvanir að deila hart sín á milli án eftirmála og átti þar við fylgismenn FH og Hauka, sem kljúfa bæinn í tvær fylkingar kringum leiki sína en taka svo höndum saman um fagurt mannlíf í bænum þess á milli. Held barasta að hún hafi rétt fyrir sér!

Breytir þó ekki því að í dag gefst Hafnfirðingum algerlega einstakt tækifæri til að hafa áhrif á stefnu og í raun inntak íslenskra stjórnmála á vissan hátt. Neitun mun hafa mikil pólitísk áhrif og segji Hafnfirðingar nei mun 31. mars fara í sögubækurnar. Raunar má einnig halda því fram að Alcan sé vandi á höndum ef já-meirihlutinn verður smár, því hvernig geta þeir sagt að Hafnfirðingar fagni stækkuðu álveri og þeim umsvifum sem því fylgir, ef tæpur helmingur bæjarbúa er því mótfallinn? Miðað við umfang herferðar Alcan er allt undir 3/4 já-atkvæða ósigur fyrir fyrirtækið.

Jákvæðir Hafnfirðingar segja NEI.

135_3512.JPG

Þessi mynd var tekin síðastliðinn þriðjudagsmorgun. Þessi sýnilega loftmengun var þarna yfir í dágóða stund. Líklega eru einhverjar skýringar á því hvers vegna þetta var. En er þetta eitthvað sem kemur til með að minnka þó að mengun aukist ef stækkað verður? (Af vef Sólar í Straumi).