The Pervert's Guide To Cinema

Á fimmtudagskvöld verður sýnd í Norræna húsinu heimildamynd sem vakið hefur mikla athygli að undanförnu og eru allir kvikmyndaunnendur hvattir til að láta hana ekki framhjá sér fara. Um er að ræða kvikmyndina The Pervert’s Guide to Cinema eftir Sophie Fiennes, þar sem slóvenski heimspekingurinn Slavoj Zizek leiðir okkur í gegnum töfraheim kvikmyndanna með sérstakri áherslu á birtingarmyndir kynlífs. Þetta er ein umtalaðasta heimildamynd síðustu missera og Variety kallar hana m.a. “snilldarlega sameiningu mynda og hugsunar” og “skyldueign fyrir hvern þann sem kallar sig alvöru kvikmyndaunnanda”. Ekki er svo verra að bæði Fiennes og Zizek verða viðstödd sýningu myndarinnar og munu ræða við gesti að henni lokinni. Sýningin er á vegum Reykjavík Documentary Workshop og hefst kl. 19:00.

Morgunblaðið birtir í sunnudagsblaðinu úttekt á hinu nýja Sjónvarpi allra landsmanna, sem formlega tekur til starfa þann 1. apríl n.k. Ljóst er að starfsemi þessarar fertugu stofnunar stendur nú á tímamótum. Þjónustusamningur við Menntamálaráðuneytið hefur verið undirritaður en drög að honum má lesa hér.

Fagna ber orðum útvarpsstjóra og hans manna um þær áherslur sem fyrirhugaðar eru varðandi stóreflingu dagskrárgerðar. Stóra spurningin er þó hvernig þetta verður í framkvæmd. Hverskonar efni hyggst Sjónvarpið sækjast eftir? Mun Sjónvarpið halda áfram þeirri stefnu sinni að kaupa sem flestar mínútur fyrir sem minnstan pening, eða hyggjast menn koma að fjármögnun sjónvarpsefnis með meira sannfærandi hætti?

Magn eða gæði? Í hvora áttina munu áherslur verða? Sjónvarp er ekkert nema dagskráin sem þar er að finna.

Hér má lesa grein mína um stöðu mála hjá Sjónvarpinu og hugmyndir mínar um hvernig og hvar dagskrá Sjónvarpsins skuli efld.