when eight bells toll dvd coverBæjarbíó sýnir þessa vikuna hasarmyndina When Eight Bells Toll eftir sögu Alistair McLean, sem kom út á íslensku undir heitinu Spyrjum að leikslokum. Myndin er frá 1971 og skartar m.a. ungum Anthony Hopkins, fullum af fögrum fyrirheitum. Svei mér ef hann minnir ekki á samtíðarmann sinn Steve McQueen, allavega á köflum. Myndin er dásamlega kauðsleg og greinilega gerð fyrir smámynt, en Hopkins kallinn dregur hvergi af sér og vegur mann og annan af mikilli íþrótt. Þá á gamli góði séntilmaðurinn Robert Morley nokkra góða spretti, en af þeim manni má jafnan hafa mikið gaman. Satt að segja – og þrátt fyrir að myndin sé barn síns tíma – var þetta skemmtileg upplifun í Bæjarbíói, sem er eiginlega þjóðargersemi og allra best er rauða plusstjaldið sem dregið var frá og fyrir með stæl. Tjöldin aftur takk, segi ég og er með undirskriftalista í undirbúningi í þessum töluðum orðum.