hitchhiker’s guide to the galaxyÞað er næstum því fyrirfram vonlaust að gera kvikmynd eftir jafn goðsagnakenndri bók og The Hitchhiker’s Guide to the Galaxy eftir Douglas Adams, enda skilst manni að höfundurinn hafi jafnan afþakkað öll slík boð í gegnum tíðina. Til þess hafa of margir skoðun á veröld bókarinnar og það er ekki nema þú hafir mikið fjárhagslegt svigrúm samfara botnlausri sannfæringu og listrænni sýn (les.: Peter Jackson) sem slíkt ævintýri á einhvern séns. En eitthvað fékk Adams til að skipta um skoðun, en kannski hefði hann bara átt að sitja á sér áfram því útkoman er ekkert sérstök. Myndin er furðuleg blanda af hversdagslegri breskri sjónvarpsmynd, lélegri sci-fi sápu og nokkrum skemmtilega súrrelískum augnablikum, sem þó eru alls ekki nógu mörg til að myndin haldi vatni. Hún er þó ekki ýkja leiðinleg á að horfa, en gaman hefði verið að sjá meistara Terry Gilliam fara höndum um efnið.