bíóhöllin-la familiaSambíóin hafa nú í aldarfjórðung haft leiðandi áhrif á kvikmyndaneyslu Íslendinga. Ef einhver er kvikmyndakóngur Íslands er það Árni Samúelsson og Sambíóin verður að telja í hópi áhrifamestu menningarstofnana landsins. Stefna fyrirtækisins hefur ávallt verið skýr; að bjóða bíógestum uppá nýjar amerískar kvikmyndakartöflur í viku hverri, nýuppteknar úr kartöflugarðinum í Hollywood. Árið 1982 var þetta nýlunda.

Hver var staðan á íslenskum kvikmyndahúsamarkaði þegar Bíóhöllin (nú Sambíóin Álfabakka) opnaði 2. mars á því herrans ári? Fyrir voru Háskólabíó (myndir frá Paramount), Stjörnubíó (Columbia), Nýja bíó (20th Century Fox), Tónabíó (MGM/United Artists), Austurbæjarbíó (Warner Bros.) og Laugarásbíó (Universal); öll með einn sal hvert. Regnboginn, fyrsta íslenska fjölsalabíóið hafði opnað 1977 og sýndi ýmiskonar myndir enda hin bíóin með samninga við stærstu dreifingaraðilana. Myndir voru að koma hingað nokkurra ára gamlar og bíóin reyndu jafnan að draga fram stóru fallbyssurnar um jólin.

Árni Samúelsson breytti öllu þessu. Bíóhöllin var fyrsta úthverfa-fjölsala-bíóið að amerískum hætti í takt við breytta borgarmynd. Árni lagði einnig áherslu á að fá nýjustu myndirnar strax hingað til lands, um leið og hann hóf að riðla því jafnvægi sem ríkti milli bíóanna um skiptingu markaðarins, með því að bjóða dreifingaraðilunum vestra betri díla. Það gat hann m.a. í krafti betri sætanýtingar, enda með fjóra sali meðan flestir hinna voru aðeins með einn.

Hinir bíórekendurnir voru ekki hrifnir og var Árni umdeildur maður í þeim bransa. Brugðist var við samkeppninni, m.a. með því að fjölga sölum og bæta aðbúnað auk þess að fá inn nýjustu myndirnar. En einhvernveginn var það svo að hin bíóin voru oftast í besta falli með tærnar þar sem Árni hafði hælana. Það segir sína sögu að í dag eru aðeins þrjú ofannefndra kvikmyndahúsa enn í rekstri, auk Smárabíós (rekið af Senu – aðalkeppinaut Sambíóanna – sem einnig rekur Regnbogann og hefur nýtekið við rekstri Háskólabíós af Sambíóunum) sem bættist í flóruna fyrir nokkrum árum og fær til sín flesta áhorfendur á hverju ári af einstökum bíóum.

bíóhöllin-mbl. 2mars1982hin bíóin 2mars1982

Bíóopnan í Mogganum þann 2. mars 1982 (smellið á myndirnar til að sjá þær stærri) er athyglisverð: vinstri síðan er þakin litlum auglýsingum frá hinum bíóunum. Þau eru að sýna allt að fimm ára gamlar myndir og flestar lítilla sanda. Það er eins og þau sofi fljótandi að feigðarósi, grunlaus um aðvífandi byltingu. Hinumegin á opnunni er heilsíða frá hinni nýju Bíóhöll. Opnunarmyndirnar tvær eru Being There, ein besta mynd Peter Sellers (reyndar þriggja ára gömul þarna) og unglingasmellurinn Endless Love (1981) með Brooke Shields – sem þá var sjóðheit! Engin íslensk heiti, ekkert um myndirnar, aðeins flennistór kynningarskilti.

Árni hafði forgöngu um mun aggressívari markaðssetningu á bíómyndum en áður hafði þekkst hér. Áherslurnar urðu enn meiri á glamúr Hollywood, aðsóknarlega velgengni mynda og tengingu Árna sjálfs við fagaðila og jafnvel þekktar stjörnur í Hollywood. Árni hætti að auglýsa íslensk heiti mynda og þær voru ekki lengur “æsispennandi og óvenju skemmtilegar í litum og cinemascope” eða eitthvað í þá áttina, auk þess sem vísað var til söguþráðar. Í staðinn voru þær auglýstar sem “nýjasta toppmyndin frá USA” eða “heitasti smellurinn frá Hollywood” og í stað ör-söguþráðar var nú vísað í hversu lengi myndin hefði setið á aðsóknarlistum vestra.

Baráttan um áhorfendur

Bíóbransinn er harður bisness og á þeim 25 árum sem liðin eru frá stofnun Sambíóanna hefur samkeppnin um tíma fólks orðið margfalt harðari. Um svipað leyti og Bíóhöllin fer af stað er myndbandaleigubyltingin að hefja innreið sína á Íslandi. Hún heltók þjóðina og í kjölfarið varð töluvert hrun í bíóaðsókn. Seinnihluta áttunda áratugsins koma um 2.5 milljónir gesta í bíó, 1982 er talan komin niður í 2 milljónir og þegar níunda áratugnum lýkur er gestafjöldi kominn niður í 1.5 milljón, þar sem hann hefur nokkurnveginn haldist. Á sama tíma fjölgar þjóðinni ört (um 230.000 1980 – um 260.000 1990). Á síðustu þrjátíu árum hefur meðaltalsaðsókn farið úr ca. 12 heimsóknum á ári á mann niður í tæpar fimm (við erum samt enn meðal þeirra þjóða sem fara hvað oftast í bíó). Að auki hafa á tímabilinu bæst við aragrúi sjónvarpsrása, auk tölvuleikja, internetsins og sölumarkaðar á DVD. Það má því færa rök fyrir því að baráttan um bíógestina hafi verið varnarbarátta og í því ljósi verður að skoða áherslur Árna á stórmyndir og Hollywood glamúr – sem óneitanlega hefur verið á kostnað annarskonar mynda.

Í rauninni hefur Árni ekki gert annað en að spila hraustlega úr því sem efnisveiturnar – stúdíóin í Hollywood – hafa rétt honum. Áherslurnar þetta tímabil hafa fyrst og fremst verið á blokkböstera umfram smærri myndir. Hollywood gerði haug af slíkum myndum áður fyrr og má gróflega skipta þeim í tvo hópa; annarsvegar b-myndirnar (ódýr spenna, hasar, hryllingur og gróft grín), hinsvegar svokallaðar óháðar myndir (listrænar, samfélagslegar, pólitískar myndir gjarnan gerðar af leikstjórum með sterka sýn). Auðvitað var haldið áfram að gera svona myndir að einhverju leyti og hin síðari ár hafa þær fundið sér skýrari farveg; b-myndirnar hafa farið á DVD sölu- og leigumarkaðinn, stundum eftir lágmarkskeyrslu í bíó – og óháðu myndirnar hafa fengið skjól í dótturfyrirtækjum myndveranna, sem sum hver voru áður sjálfstæð en hafa nú verið gleypt af risunum (t.d. Focus og Miramax) eða þeir hreinlega stofnað sérstakar deildir til að sinna þessum myndum (sbr. Warner Independent, Paramount Vantage, Sony Classics og Fox Searchlight). Þessi fyrirtæki eru kannski ekki oft að taka stóra sénsa hvað varðar framsækni en leggja áherslu á vandaðar myndir sem höfða til afmarkaðra hópa sem vilja sjá eitthvað annað en “poppkornið”.

Árni, fjölskylda hans og annað samstarfsfólk, hefur fyrir löngu sannað afburða hæfni sína til reksturs kvikmyndahúsa. Það er og áberandi að Árni er ástríðufullur áhugamaður um kvikmyndir – þ.e. kvikmyndir frá draumafabrikkunni. Ef finna má lítilsháttar ljóð á ráði Árna er það kannski helst tvennt: annarsvegar áhugaleysi um annarskonar myndir og hinsvegar óþarfa viðkvæmni gagnvart gagnrýnendum sem verður það á að hafa aðrar skoðanir en hann á myndum Sambíóanna. Hann á það stundum til að fyrtast mjög ef honum finnst einhver gagnrýnandinn fara yfir strikið að sínu mati. Við slíku er fátt að gera – nema kannski að vitna í fræga kvikmynd:

“It’s not personal, Sonny. It’s strictly business.

Til hamingju með áfangann Árni og kó.