Hér er fjallað um Óskarsverðlaunin, endurreistan Fjalakött og forsíðu Morgunblaðsins í dag, sem er athyglisverð fyrir þá sem hafa áhuga á kvikmyndum. Þrennt var athyglisverðast á nýafstöðnu Óskarskvöldi; „grand old man“ Scorsese fékk loksins afar síðbúna styttu en að vísu fyrir mynd sem er ágæt en ekki ein af hans bestu, sömuleiðis annar höfuðsnillingur – Ennio Morricone – sem Óskari hefur einnig tekist að forðast hingað til af einhverjum óskiljanlegum ástæðum, en fékk nú heiðursverðlaunin og þýska myndin Líf annarra sem tók erlenda flokkinn og lyftir þar með lokinu af þeim suðupotti sem kraumar nú hjá þessu forna kvikmyndaveldi.

Óskarinn og Scorsese

Gömul kynni gleymast ei: Frá vinstri: Spielberg, Scorsese, De Palma, Lucas og Coppola.

Gamla klíkan – Spielberg, Lucas og Coppola voru mættir á sviðið til að veita verðlaunin fyrir leikstjóra ársins, þannig að sigur Scorsese lá í loftinu. Vantaði bara Brian De Palma og þá væri komin kjarninn í klíkunni sem bylti Hollywood á áttunda áratugnum. Spielberg og Coppola með slatta af Óskurum í farteskinu, Lucas að vísu ekki en kannski sá þessara allsherjarsnillinga sem hefur plöggað sig inní flest hjörtu og veski samferðamanna sinna. Fræg er sagan af þeim fimmmenningum þegar Lucas bað þá að koma og kíkja á litla mynd sem hann hafði verið að dunda sér við. Hann hafði áhyggjur af því að þetta væri tóm steypa hjá sér og vildi fá félagana til að kommentera á það hvort hægt væri að bjarga málunum fyrir horn. Að sýningu lokinni sátu menn hljóðir eftir. Coppola, Scorsese og De Palma voru þungbúnir og töldu fátt til bjargar. Spielberg var þó annarrar skoðunar, taldi að myndin ætti alveg séns.

Myndin kom út stuttu síðar undir nafninu Star Wars.

Þetta var í sjöunda skiptið sem Scorsese er tilnefndur og margoft búið að hamra á meintri mannvonsku Akademíunnar að láta manninn ekki hafa verðlaun, enda enginn bandarískur leikstjóri honum fremri í kvikmyndaíþróttinni á síðari tímum. Og auðvitað hefði hann átt að fá verðlaunin fyrir Taxi Driver, Raging Bull og Goodfellas á sínum tíma (í staðinn voru það Rocky, Ordinary People og Dances With Wolves… slarkfærar myndir en ekki mikið meira). Ég sagði um daginn að The Departed væri ekkert sérstök og í raun hefði hann ekki gert verulega góða mynd síðan Goodfellas. Þá er viðmiðunin verk hans sjálfs fyrst og fremst því yfirleitt komast fáir með tærnar að hælum þessa meistara hvað varðar kraft, sannfæringu og leikgleði. Scorsese er kvikmyndalegur stílisti svo af ber og áhrif hans á kvikmyndasöguna hafa verið gríðarleg. Það er því fagnaðarefni að álögunum skuli hafa verið lyft af honum. Nú getur hann gefið dauðann og djöfulinn í þetta allt saman, hætt að gera útblásnar stórmyndir og snúið sér að persónulegri verkum, eins og hann hefur talað um.

Ennio Morricone

Ennio MorriconeTónlist Ennio Morricone er einfaldlega guðdómleg. Ekki þarf annað en að hlusta á tónlistina við myndirnar Once Upon a Time in America, Cinema Paradiso, The Battle of Algiers, The Untouchables og The Mission auk spaghettivestra Sergio Leone til að skilja það og málið er dautt. Maðurinn er rétt tæplega áttræður og hefur gert skor fyrir tæplega 400 myndir. Hvernig hann hefur komist hjá því að fá styttu hingað til er óskiljanlegt (fimm tilnefningar þó). Ég tek ofan í návist meistarans.

Líf annarra og lífsmark með þýskum kvikmyndum?

Das Leben Der Anderen eða Líf annarra er fyrsta mynd leikstjórans Florian Henckel von Donnersmarck og fjallar um einkennilegt samband starfsmanns Stasi við listamann sem honum var uppálagt að fylgjast með. Myndin hefur verið að fá nær einróma lof (hlaut m.a. Evrópuverðlaunin í desember s.l.). Hún er væntanleg hingað á vegum Græna ljóssins innan skamms. Erlendi flokkurinn hefur gjarnan verið til vandræða á hátíðinni enda nær hann sjaldnast að vera sannfærandi þverskurður af því besta sem boði er í heiminum á viðkomandi ári. Að þessu sinni þykir þó hafa tekist sæmilega til. Þær fregnir berast nú víða að (síðast í Morgunblaðinu í dag) að vegur þýskrar kvikmyndagerðar fari vaxandi á nýjan leik. Til marks um þetta má m.a. nefna myndirnar Good Bye Lenin og Der Untergang, en það er margt annað að gerast í Þýskalandi og nú eru þarlendir áhorfendur farnir að flykkjast á innlendar myndir í meira mæli en áður. Langt er síðan Þjóðverjar voru að gera eitthvað af viti að einhverju marki og verður að leita aftur til áttunda áratugs síðustu aldar í þeim efnum, sbr. Fassbinder, Herzog, Wenders, von Trotta ofl.

Fjalaköttur aftur á kreik

Fjalakötturinn, sem forðum var kvikmyndaklúbbur framhaldsskólanna í forsvari Friðriks Þór Friðrikssonar og fleiri góðra manna, er nú aftur komin á kreik í Tjarnarbíói. Allar upplýsingar um starfsemina má fá hér. Fagna mjög þessari tilraun til að auka breiddina í bíóúrvalinu hér, sem hefur til langs tíma verið vægast sagt bágborið. Eða þætti mönnum það bara fínt að hér væri ekkert lesið nema Dan Brown og Harry Potter og kannski stöku Arnaldur Indriða inná milli? Með allri virðingu fyrir þeim ágætu mönnum.

Forsíða Moggans

fors�ða mbl. 27.2.2007Mér fannst eitt augnablik eins og ég væri að skoða Variety þegar ég sá forsíðu Moggans í dag. Aðaluppslátturinn er frétt um kaup Elf Films á kvikmyndarétti bókarinnar Myndin af pabba eftir Thelmu Ásdísardóttur og Gerði Kristnýju Guðjónsdóttur. Þá er einnig vísað til greinar Sigurbjargar Þrastardóttur um uppgang þýskra kvikmynda og svo auðvitað Óskarsuppgjörs blaðsins – þó að forsíðuvísunin sé í umfjöllun um kjóla…

Fréttir af kaupum á kvikmyndarétti eru ekki algengar á forsíðum eða innsíðum íslenskra blaða. Þetta eru í eðli sínu bransafréttir og almenningur er kannski ekki alveg í aðstöðu til að gera sér grein fyrir því að slík viðskipti leiða ekki endilega til bíómyndar uppá hvíta tjaldinu. Að hinu leytinu er það skiljanlegt að Mogganum finnist þetta fréttaefni enda hefur bókin fengið gríðarlega athygli. Áform þeirra Elf-systra, Birnu, Helenu og Guðrúnar Ágústu Einarsdætra – sem hafa rekið fyrirtæki sitt í Los Angeles um árabil – eru vissulega spennandi.