Hér er fjallað um tvær myndir Græna ljóssins; Little Miss Sunshine og Notes on a Scandal sem báðar eru afbragðsfínar, samtíðarspegilinn Silvíu Nótt sem snúin er aftur á Skjá einum og Eurovision forkeppnina í Sjónvarpinu sem lauk á laugardagskvöld.

Þessa dagana er bíóúrvalið með ágætum eins og jafnan á þessum árstíma. A.m.k. tugur mynda vekur forvitni og auk þess eru þrjár íslenskar myndir í gangi sem vert er að kíkja á; Foreldrar, Anna og skapsveiflurnar og Köld slóð. Fjórar myndanna eru frá Græna ljósinu sem sérhæfir sig í gæðamyndum, Little Children, Pan’s Labyrinth, Little Miss Sunshine og Notes on a Scandal. Allar hafa verið að fá fín viðbrögð og tilnefningar til Óskars og annarra verðlauna. Hef séð tvær þær síðastnefndu og stefni á að ná hinum líka.

Vonarglæta í grámóskunni

Little Miss Sunshine er svona lítil og sæt mannleg kómedía eins og nokkuð reglulega dúkkar upp í ameríska indí-geiranum; þetta eru yfirleitt sögur af hvunndagsfólki sem þreyir grámóskulegan þorrann dagana langa og spyr sig hvar dagar lífsins hafi lit sínum glatað. Svo eru gjarnan gefin einhver fyrirheit um endurnýjun og fleiri litbrigði í tilveruna. Þegar sagt er hreinskilnislega frá, gengur maður yfirleitt út með bros á vör og vonbetri á mannlega tilvist. Þetta er ein af þeim myndum.

Æsispennandi hvunndagssaga

Notes on a Scandal er áhrifamikið og áleitið drama, borið uppi af afburðaleikkonunum Judi Dench og Cate Blanchett. Judi leikur bitra kennslukonu sem kemst að því að nýji listakennarinn (Cate) á reglulega ástarfundi með 15 ára nemanda sínum. Hún býðst til að láta málið kyrrt liggja gegn því að verða ljósið í lífi Cate. Þetta er afburða haganlega gerð mynd, þar sem allir helstu þættir, leikur, leikstjórn og handrit ganga eftirminnilega upp. Leikkonurnar tvær taka enga gísla í túlkun sinni og maður er á bríkinni allan tímann. Þetta er frábært dæmi um hvernig hægt er að segja æsispennandi sögu beint úr hversdagslegum veruleika.

Endurkoma Silvíu

„Verð að hitta Kolbein kaftein, listin stígur niður af himnum til lágstéttanna“ sagði Vaila Veinólínó eitt sinn yfirkomin af ástarbríma. Silvía Nótt, barnabarn Vailu, hefur líka stigið á ný niður til lágstéttanna og hófst endurkoman á föstudagskvöldið á Skjá einum.

Ég hef áður lýst efasemdum mínum um endurkomu Silvíu. Það er spurning hvort ástæða sé til að halda áfram með sama brandarann – þó hann sé góður. Um leið lýsti ég aðdáun minni á uppákomunni allri og víst er að þetta er allt gert af töluverðri kúnst, sannfæringu og ísmeygilegum húmor. Já, ég dreg einfaldlega ekkert úr því; Ágústa Eva, Gaukur og samstarfsfólk þeirra er að gera þetta frábærlega vel. Það er líka skiljanlegt að Skjár einn skuli vilja halda þessu áfram, af fjöldamörgum misathyglisverðum tilraunum þeirra til dagskrárgerðar í gegnum tíðina ber þetta prógram af (nei, ég er ekki að gleyma Sigtinu, hvet Skjá einn til að halda áfram að þróa þann þátt, eða sambærilegt efni með þeim aðilum). Ég mun því fylgjast með en hef smá áhyggjur af því að þetta þynnist smám saman út og missi bitið. Það væri hinsvegar fróðlegt að sjá aðstandendurna takast á við önnur verkefni, enda ljóst að hér eru miklir talentar á ferð.

Vel heppnuð söngvakeppni

myndÞegar best lætur er Sjónvarpið í hlutverki sögumannsins við varðeldinn, þar sem ættbálkurinn safnast saman að kvöldi dags til að heyra sögur og gamanmál. Forkeppni Eurovision er dagskrárgerð af þessum toga, þjóðin sameinast við ljórann og vill láta skemmta sér. Útsendingin var Sjónvarpinu og Basecamp til sóma og gott dæmi um hvernig skemmtiefni Sjónvarpsins á að vera; alþýðlegt, glæsilegt og hallærislegt í bland. Jújú, það má skammast yfir sumum laganna eftir smekk, en ég fer ekki ofan af því að lag Sveins Rúnars er gott og vel flutt af traustum Eiríki Haukssyni. No nonsense maður þar á ferð. Þá hefur Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir innsiglað stöðu sína sem hin nýja Sjónvarpsdrottning. Ekki aðeins er hún mikið fyrir augað sem aldrei spillir fyrir á skjánum, heldur hefur hún til að bera mikinn náttúrulegan sjarma og þægilega návist. Hún þyrfti ögn meiri tilsögn í raddbeitingu og tengslamyndun við salinn en það eru atriði sem ætti að vera auðvelt að laga í hennar tilfelli.

Hápunktar kvöldsins fyrir mér voru atriði Silvíu Nætur, innslagið með Þorvaldi Bjarna og Rúmeninn sem steig á stokk með Eurotrash diskóið. Framleiðslustandard var góður og að mestu hnökralaus.

Til hamingju Ísland.