Stundum kíki ég á hina andríku ofsatrúarmenn á Vef-Þjóðviljanum. Þeir eru yfirleitt fullir af þjósti og vandlætingu yfir því sem þeir telja forsjárhyggju og andfrelsislega hugsun í þjóðfélaginu og heiminum. Stundum hafa þeir meira að segja nokkuð til síns máls. Og fyrir kemur að þeir séu meira að segja fyndnir. Þó er mesta grínið ábyggilega ekki þannig meint hjá þeim, enda virðist það býsna alvörugefið fyrirheit. Í haus vefritsins stendur nefnilega m.a.:“Við gerum okkar besta til að blaðið sé eins ólíkt Þjóðviljanum heitnum og mögulegt er.“ Það er skemmst frá því að segja að af einhverjum furðulegum ástæðum hefur þeim ávallt mistekist þetta.

Nú þekki ég ágætlega til Þjóðviljans heitins, las hann spjaldanna á milli frá miðjum áttunda áratugnum og allt fram til þess tíunda. Eitt af því sem einkenndi blaðið voru skattyrði hverskonar, uppnefni, útúrsnúningar og stórkallalegar fullyrðingar ásamt brigslum um hverskyns ómennsku og plott gegn alþýðu manna. Til að gæta allrar sanngirni voru þarna líka mikið af fróðlegum og athyglisverðum greinum um aðskiljanlegustu hluti, skrifaðar af fínum pennum. En engu er líkara en aðstandendur Vef-Þjóðviljans leggi sig í framkróka um að halda uppi merki þessara leiðinlegri hliða heimóttarlegrar blaðamennsku sem svo oft mátti finna í Þjóðviljanum (og hinum blöðunum svosem líka) – nema bara með öfugum pólitískum formerkjum! Engin sjáanlegur munur er hinsvegar á aðferðafræðinni né hinni djúpu sannfæringu hins rétttrúaða. Út af fyrir sig er skondið að ungt fólk á hægri vængnum skuli ómeðvitað heiðra pólitíska andstæðinga sína með þessum hætti. En um leið er óneitanlega dálítið neyðarlegt að gefa út jafn borginmannlega yfirlýsingu þegar hið gagnstæða blasir svona rækilega við.

Andríkum til vorkunar má þó benda á að mannskepnan sér gjarnan flísina í auga náungans en hættir til að láta bjálkann í eigin auga framhjá sér fara.

Nú hafa Staksteinar Morgunblaðsins (af öllum!) vakið athygli á þessu. Síðastliðinn föstudag vísa þeir til fyrrnefndra einkunnarorða vefritsins:

„Útgefendum Vef-Þjóðviljans tekst ekki vel að standa við þetta fyrirheit. Lengst af mátti ætla að Þjóðviljanum, málgagni sósíalista á Íslandi væri haldið úti til þess að hreyta skætingi í Morgunblaðið. Aðrir fengu sinn skammt og þá ekki sízt forystumenn Sjálfstæðisflokksins. Vef-Þjóðviljinn hefur tekið við þessu hlutverki Þjóðviljans. Á síðum Vef-Þjóðviljans er haldið uppi reglulegum skætingi í garð Morgunblaðsins.“

Öðruvísi mér áður brá.