Í Ástríki í Bretalandi segir af því þegar Ástríkur hittir góðlegan Breta og hrífst af klæðnaði hans. Ástríkur þreifar á fötunum og spyr: „Hvaða efni er þetta?“ Og Bretinn svarar: „Þetta er tweed.“ „Jæja“, segir Ástríkur, „og er það endingargott?“. „Veit það ekki“, svarar sá breski, „ég hef bara átt það í þrjátíu ár.“

„Tjallinn er tjúll“, sagði Steinríkur gjarnan og víst er að Bretar hafa haft orð á sér fyrir marga sérviskuna í gegnum tíðina. Á móti má benda á að Bretar eru alveg jafn hissa á útlendingum. Sagan segir að þegar rætt var um upptöku Evrunnar á sínum tíma þótti Bretum það alveg koma til greina – þar til þeir uppgötvuðu að ekki stæði til að hafa mynd af drottningunni á gjaldmiðlinum!

BAFTA-verðlaunin eru skondin uppákoma, eitt af mörgum dæmum um þá tilhneigingu minna kæru Breta að líta enn á sig sem miðju alheimsins – eða a.m.k. hérumbil. BAFTA eru nefnilega ekki lókal verðlaun, þar sem bara innlendar kvikmyndir fá klapp á bakið, heldur alheimsverðlaun líkt og Óskar stóri frændi (les.: hátíð þar sem breskar og bandarískar myndir fá að keppa um verðlaun sín á milli en „útlendingar“ fá líka að vera með í sér flokki). Þessvegna fara leikar gjarnan þannig að bandarískar myndir fá toppverðlaunin. Og þá segja þeir bara „en ekki hvað?“, því hér er allt vegið og metið á ólympískum grunni. Þegar hinsvegar bresk mynd fær þeirra eigin verðlaun benda þeir stoltir á þá óumdeilanlegu staðreynd að þeir eru alveg jafn góðir, ef ekki betri en Ameríkanar (og hafa auðvitað kennt þeim allt sem þeir kunna).

Hinn upplýstari hluti Breta er, líkt og svo margir Íslendingar, mjög áfram um að vera frekar erlendis. Hinsvegar liggja gerólíkar forsendur að baki. Hér heima snýst þetta um að losa sig við sauðskinnsskóna og fjósalyktina, hjá Bretunum er hin undirliggjandi hugsun sú að Bretland jafngildi siðmenningu og að restin af heiminum sé aðeins misásættanlegt form barbarisma sem Bretar geti þó bætt úr að einhverju leyti, sé á þá hlustað og eftir þeim farið.

Sem er bráðskemmtileg hugsun og vel skiljanleg.

Bretar voru jú miðja heimsins um alllanga hríð og þrátt fyrir að hin pólitísku völd þeirra á alþjóðavettvangi séu löngu horfin, er áhrifavald breskrar sögu, menningar og viðhorfa enn gríðarlegt um heim allan.

Og jú mikil ósköp, samfara minnkandi pólitískum áhrifum hafa komplexar margra Breta yfir eigin heimalningshyggju (parókíalisma) vaxið mjög. Fátt er meira niðurlægjandi fyrir þann sem eitt sinn sá ríki sitt ná til hinna fjarlægari enda veraldar en að komast að því að hann sér ekki lengur út fyrir túngarðinn heima. Aldrei skal það verða.

Þessvegna eru BAFTA verðlaunin meðal annars eins og þau eru. Hinar ástæðurnar eru líka ágætar; sameiginleg tunga með Ameríkönum, mikið samkrull með bandaríska kvikmyndaiðnaðinum og breitt framboð af hæfileikafólki sem auðveldlega stendur fremst meðal jafningja í heiminum.

Annars var þetta bara ágætt í gærkvöldi. Heimabruggið The Queen mynd ársins og Helen Mirren fékk leikkonuverðlaunin. Trúir sinni innbyggðu hógværð eru heimamenn þegar byrjaðir að skammast útí þá fásinnu að veita þessari „sjónvarpsmynd“ verðlaunin. Þeir eru nefnilega alvanir myndum af þessum gæðastandard í imbanum hjá sér og finnst lítið til koma, kvarta reyndar oft yfir því hvað sjónvarpið sitt sé lélegt.

Þá fékk The Last King of Scotland eftir Kevin McDonald, sem gerði þá frábæru Touching the Void, verðlaunin fyrir bestu bresku mynd ársins og hinn frábæri Forest Whitaker Íslandsvinur vors og blóma hlaut leikaraverðlaunin fyrir aðalhlutverkið í sömu mynd. Einhverntíma kom nú einmitt til tals að Baltasar leikstýrði þeirri mynd, en svo fór að þetta var næsta mynd Whitakers á eftir Little Trip. BAFTA sá hinsvegar enga ástæðu til að svo mikið sem tilnefna James McAvoy, einn athyglisverðasta leikara Breta af yngri kynslóðinni, sem þykir einnig brillera í myndinni.

Ánægjulegt var að sjá Andreu Arnold fá verðlaunin fyrir bestu fyrstu mynd; hina afbragsðsfínu Red Road. Arnold kom hingað á síðustu kvikmyndahátíð með myndina. Áður en ég kynnti hana fyrir gestum Tjarnarbíós átti ég við hana stutt spjall á útitröppunum. Hún leit skælbrosandi yfir Tjörnina og sagði: „Þetta er frábært land, mig langar að flytja hingað strax.“ Ég spurði hana hvað hún hefði verið hérna lengi. Hún leit snöggt á úrið sitt og sagði: „Tæpa tvo tíma.“

Og annar leikstjóri, Bretinn Paul Greengrass, var réttur maður á réttum stað þegar hann tók við leikstjóraverðlaununum fyrir United 93 – sem merkilegt nokk var nær alfarið gerð í Bretlandi.

Annars má sjá verðlaun og tilnefningar í heild sinni hér.