ipodKristján B. Jónasson spyr réttu spurninganna mitt í pólitísku bloggþrasi þúsundanna og gott hjá honum: „Hvers vegna þurfum við yfirleitt stjórnmálaflokka? Gera þeir líf mitt betra? Hvernig hjálpar það mér að setja bara eitt X á seðil, þegar ég augljóslega myndi vilja raða saman mínu persónulega prógrammi líkt og ég myndi hlaða lögum inn á iPod? Er þetta kerfi ekki alveg óskaplega 20. aldarlegt, so last age?“  Jú segi ég, enda ánægður iPod eigandi og skil hvað Kristján er að fara. Það er einfaldlega úti um albúmin. Playlistar og „shuffle“ eru málið og skapa áður óþekkta dýnamik. Þetta rímar líka við þá sannfæringu mína til margra ára að flokkarnir og skiptingin í hægri og vinstri séu gersamlega úrelt fyrirbrigði. Ekkert af þessu nær utan um úrlausnarefni nútíðar – hvað þá framtíðar. Ég get bara ekki varið það fyrir sjálfum mér að binda trúss mitt við einhvern tiltekinn flokk, þetta er gölluð vara og hefði ég keypt hana útúr búð myndi ég vilja fá endurgreitt. Hinsvegar hef ég trú á hugmyndum og atorku ákveðinna einstaklinga úr flestum flokkum og vildi helst geta raðað þeim saman í lið, líkt og ég bý til playlista í iPodinum og „sjöffla“ svo öllu heila klabbinu til að sjá hvernig það kemur út.

Vonandi fer því um flokkana eins og geisladiskana og vinylinn: þeirra bíður ruslahaugur sögunnar. Í staðinn fengjum við að velja okkur málefni og svo þá frambjóðendur (eftir almennum trúverðugleika) sem hyggjast berjast fyrir þeim. Þetta reyndi auðvitað meira á kjósendur en það er allt í lagi, pólitíkin er alltof mikilvæg til að láta bara stjórnmálamönnunum hana eftir.

Ég myndi t.d. tikka við:

– Markaðsfrelsi með sem öflugastri samkeppni. Sagði ég ekki örugglega samkeppni? Leggja verður sérstaka áherslu á að brjóta á bak aftur fákeppni og einokun.

– Vandaða og skýrt skilgreinda almannaþjónustu á vegum ríkisins, þ.m.t. á sviði heilbrigðis-, velferðar-, menntunar- og menningarmála, þar sem kostir einkaframtaks væru einnig nýttir.

– Lýðræðisvæðingu þar sem aukin krafa er gerð um þátttöku almennings í pólitískri ákvarðanatöku.

– Áherslur á uppbyggingu marghliða þekkingarsamfélags og nýsköpunar um leið og dregið er úr vægi frumvinnslugreina.

– Samræðustjórnmál í stað skotgrafahernaðar.

Svo nokkuð sé nefnt…

Í hinni frábæru bók sinni The Future and its Enemies færir Virginia Postrel sannfærandi rök fyrir því að „hægri-vinstri“ ásinn dugi ekki til að skilgreina veruleikann og að eðlilegra sé að draga hina pólitísku átakalínu milli framþróunarsinna og kyrrstöðusinna (dynamists – stasists). 

„Dynamists“ eða „framþróunarsinnar“ eru þeir sem trúa á hið skapandi ferli tilrauna, mistaka og endurbóta og eru hlynntir opnu samfélagi þar sem skýrar leikreglur hvetja til sköpunar og frumkvæðis. Þeir deili ekki endilega sameiginlegri pólitískri sýn heldur skilji mikilvægi flókinna þróunarferla á borð við vísindarannsóknir, samkeppni, listræna tjáningu og tækniuppgötvanir. Þeir skilja líka að útkoman er óvissu háð. Þetta fólk myndar „flokk lífsins“, segir Postrel (Draumaland Andra Snæs er t.d. mjög á þessum nótum).

„Stasists“ eða „kyrrstöðusinnar“ eru hinsvegar þeir sem trúa meðal annars því að reglur og eftirlit leysi hvers manns vanda (teknókratar eða reglugerðarsnatar). Þeir draga upp dökka mynd af framtíðinni og hvetja til þess að komið verði böndum á breytingaöflin og þeim miðstýrt, annars fari illa. Þetta er fólkið sem vill ákveða útkomuna fyrirfram og sneiða hjá samkeppni og tilraunum til að fá fordómum sínum fullnægt. Sumir vilja meira að segja hverfa aftur til fortíðar (í Luddískum anda). Postrel kallar þetta fólk „óvini framtíðarinnar“.

Postrel dregur vissulega upp klassíska mynd: hugrekki gegn ótta – áræði gegn öryggi – framþróun gegn kyrrstöðu. Flest okkar kannast við þessa þætti í eigin fari. Báðir eru okkur nauðsynlegir á sinn hátt. En viljum við ekki flest um leið telja okkur meiri framþróunarsinna en kyrrstöðusinna?

Það er svo bágt að standa í stað,
      og mönnunum munar
annaðhvort aftur á bak
      ellegar nokkuð á leið.

Eins og segir í kvæðinu.

Og hvað gerist svo þegar þessi teoría Postrel er mátuð við íslenska stjórnmálamenn? Finnast ekki framþróunar- og kyrrstöðusinnar í öllum flokkum? Fólk sem svarar til ofangreindra lýsinga? Erum við þá ekki með fjölda fólks sem deilir ákveðnum grundvallarskoðunum, en kýs að vera undir merki ólíkra flokka? Til hvers?

Hættum að tala um hægri og vinstri. Það hefur enga merkingu lengur.