Jæja, búið að samþykkja RÚV-frumvarpið og hvað nú? Enn og aftur: sjónvarp er ekkert nema dagskrá. Í framhaldi af síðasta pistli: á vef Alþingis er að finna svar menntamálaráðherra við fyrirspurn Marðar Árnasonar um hlutfallslega skiptingu íslensks efnis á kjörtíma (19-23) í Sjónvarpinu á undanförnum árum. Þar kemur ýmislegt athyglisvert fram eins og sjá má af eftirfarandi töflu:
TAFLA 1:
Íslenskt sjónvarpsefni sýnt á kjörtíma, hlutfallsleg skipting.
2001 | 2002 | 2003 | 2004 | 2005 | |
Leikið efni | 3,95% | 3,29% | 2,22% | 2,40% | 4,58% |
Skemmtiefni | 9,93% | 10,16% | 12,86% | 9,83% | 9,64% |
Íþróttir | 7,88% | 8,57% | 8,53% | 14,70% | 10,61% |
Fréttir | 42,42% | 41,72% | 40,77% | 41,78% | 42,20% |
Dægurmál og fréttatengt | 21,94% | 19,26% | 17,32% | 17,18% | 16,69% |
Listir | 5,28% | 7,50% | 7,57% | 5,24% | 7,38% |
Heimildaþættir | 3,65% | 4,14% | 6,10% | 6,41% | 5,78% |
Annað efni, svo sem tónlist, vísindi o.fl. | 4,97% | 5,36% | 4,64% | 2,45% | 3,13% |
Í svari menntamálaráðherra kemur einnig fram að Sjónvarpið skilgreinir innlent efni með eftirfarandi hætti:
„Innlent dagskrárefni telst allt það efni sem framleitt er innan lands af sjónvarpinu sjálfu eða sjálfstæðum framleiðendum. Jafnframt telst efni innlent þegar efni af erlendum uppruna er fellt inn í innlenda þætti og það hefur verið talsett, textað og tilreitt sem innlent efni. Fréttir eru til að mynda innlent efni, en innan þeirra eru fréttamyndir teknar erlendis. Sama gildir um aðra samsetta dagskrá, íþróttir, Stundina okkar, Nýjustu tækni og vísindi, Kastljósið og aðra samsetta þætti.“
Gott og vel. Í 7. grein útvarpslaga kemur þó fram að:
„Sjónvarpsstöðvar skulu kosta kapps um að meiri hluta útsendingartíma sé varið í íslenskt dagskrárefni og annað dagskrárefni frá Evrópu. Með útsendingartíma er í þessu sambandi átt við heildarútsendingartíma sjónvarpsstöðva að frádregnum þeim tíma sem varið er til frétta, íþróttaviðburða, leikja, auglýsinga, textavarpsþjónustu og fjarsölu.“
Þrátt fyrir að hér hefði löggjafinn gjarnan mátt kveða fastar að orði, er þó ljóst að það er vilji hans að meirihluti útsendingartíma sjónvarpsstöðvanna samanstandi af innlendu (og reyndar evrópsku) efni utan frétta og íþrótta.
Hvað er í raun og veru mikið íslenskt efni í Sjónvarpinu?
Því miður virðist ekki hafa verið spurt lykilspurningarinnar: hversu hátt hlutfall af heildarkjörtíma er hið innlenda efni? Og í framhaldi af því: hversu hátt hlutfall af heildar útsendingartíma er hin innlenda dagskrá? Með og án frétta og íþrótta.
Í rauninni ættu þessar upplýsingar að liggja fyrir á vef RÚV.
Í drögum að þjónustusamningi kemur þó fram að heildarhlutfall innlends efnis á kjörtíma árið 2005 hafi verið 44%. Þetta gera um 640 klukkustundir – ef við gerum ráð fyrir kjörtímanum frá 19-23 árið um kring, sem samtals er 1.460 klukkustundir.
Af þessum 640 klukkustundum má áætla að fréttir, fréttatengt efni og Kastljós (sem er fyrst og fremst „current affairs“ prógramm) séu um 380 klukkustundir eða tæp 59% af innlendu efni á kjörtíma. Íþróttir 2005 eru þá um 65 klukkustundir eða 10.61% af innlendu efni á kjörtíma.
Annað efni, þ.e. það efni sem kallast „innlend dagskrárgerð“ er þá um 195 klukkustundir eða um 30% af innlendu efni á kjörtíma. Inní þeim pakka er m.a. leikið efni, heimildamyndir, fræðslumyndir, tónlistarefni, skemmtiefni og efni um listir.
Hafa ber í huga þessar prósentutölur lýsa aðeins innbyrðis hlutfalli innlends efnis á kjörtíma – ekki raunverulegu hlutfalli innlendrar dagskrár á kjörtíma. Þannig er t.d. mikilvægasti liður dagskrár Sjónvarpsins, innlend dagskrárgerð – aðal röksemdin fyrir sjónvarpsrekstri á vegum ríkisins – aðeins rúmlega 13% af heildar útsendu efni á kjörtíma.
Það er auðvitað óásættanlegt.
Hvar lendir aukningin?
Í þjónustusamningnum sem kynntur var í haust kemur fram að innlend kjörtímadagskrá Sjónvarpsins skuli fara úr 44% í 65% á næstu fjórum árum – fari semsagt úr 640 klst. í 949 klst. af 1.460. Þetta er aukning um 309 klst. eða tæplega 50%.
Borðliggjandi er hvar þessi aukning á að koma. Hún hlýtur að verða í framboði leikins efnis og annars sem ég flokkaði áðan undir „innlenda dagskrárgerð“. Verði aukningin öll þar mun hlutfall þess efnishluta fara úr 13% af heildarkjörtíma (195 klst.) í ca. 34% (504 klst.).
Það er alveg í áttina.
Hvar verður þá niðurskurðurinn? Ljóst er að ekki verður tekið af fréttum og íþróttum. Ef eitthvað er þarf einnig að efla þessa liði, sérstaklega sárvantar vandaða fréttaskýringaþætti á borð við Í brennidepli á dagskrá RÚV. Niðurskurðurinn hlýtur því að verða í erlenda efninu.
Til fróðleiks og samanburðar stilli ég upp töflu 2 sem sýnir stöðuna eins og hún er (2005) og eins og hún gæti orðið eftir fjögur ár miðað við ofangreindar forsendur (þ.e. að öll aukning dagskrár fari í liðinn Innlend dagskrárgerð). Fyrsti töludálkurinn sýnir íslenskt efnishlutfall af heildarkjörtíma 2005, annar dálkurinn sýnir hvernig það hlutfall gæti litið út eftir að markmiðum þjónustusamnings er náð og þriðji dálkurinn sýnir þau markmið sem ég tel að RÚV ætti að setja sér, t.d. á næstu tíu árum.
TAFLA 2:
Íslenskt sjónvarpsefni sem hlutfall af heildarkjörtíma (kl. 19-23).
EFNISLIÐIR | % AF KJÖRT. ’05 | ÞJÓNUSTUSAMN. 2011 | MARKMIÐ 2017 |
Innlend dagskrárgerð* |
13% |
34% |
40% |
Fréttir, Kastljós, fréttatengt |
26% |
26% |
30% |
Íþróttir |
5% |
5% |
5% |
SAMTALS |
44% |
65% |
75% |
(* Innlend dagskrárgerð er loðið og teygjanlegt hugtak, en hér stendur það fyrir leikið efni, heimildamyndir, fræðslumyndir, tónlistarefni, skemmtiefni og efni um listir.)
Af töflu 2 má glögglega sjá hvar skóinn kreppir. Innlenda dagskrárgerð (skv. ofangreindri skilgreiningu) verður að efla. Verði aukningin sett í innlendu dagskrárgerðina þýðir það í raun ekki aðeins 50% aukningu heldur hvorki meira né minna en hátt í 150% aukningu á þessum liðum sem nefndir eru að ofan. Það er samt ekki nóg því í flestum tilfellum yrði einfaldlega farið úr mjög litlu í eitthvað sem kallast má í áttina.
Það verður fróðlegt að sjá hvaða stefnu málin taka á næstu mánuðum og misserum.
Óskalisti
Hvað innlendu dagskrárgerðina varðar tel ég að sérstaka áherslu þurfi að leggja á aukningu leikins efnis af ýmsu tagi, sem og heimildamynda þar sem fjallað er um samfélagsleg og söguleg efni. Einnig vildi ég sjá meira efni á sviði vísinda og fræða, sem og umfjöllun um bókmenntir og listir.
Óskalistinn minn á sviði innlendrar dagskrárgerðar gæti t.d. litið svona út:
TAFLA 3:
Óskalisti yfir skiptingu efnisflokka innlendrar dagskrár.
EFNISLIÐIR |
Klst. 2005 |
% 2005* |
Klst. 2011 |
% 2011* |
Leikið efni** |
29 |
2% |
48 |
3.2% |
Skemmtiefni |
62 |
4% |
110 |
7% |
Listir |
47 |
3% |
86 |
6.4% |
Heimildaþættir |
37 |
3% |
180 |
12% |
Annað efni, svo sem tónlist, vísindi o.fl. |
20 |
1% |
85 |
5.4% |
SAMTALS |
195 |
13% |
509 |
34% |
* Hlutfall af kjörtíma (kl. 19-23).
** Leikið efni gæti t.d. skipst svona:
TAFLA 4:
Óskalisti yfir skiptingu leikins efnis í Sjónvarpinu.
LEIKIÐ EFNI – SKIPTING |
Fjöldi þátta |
Klst. 2011 |
% 2011 |
Gamanþáttaröð (28 mín. pr. þáttur) |
12 |
6 |
0.4% |
Sápa (28 mín pr. þáttur) |
12 |
6 |
0.4% |
Dramaþáttur 1 (55 mín. pr. þáttur) |
6 |
6 |
0.4% |
Dramaþáttur 2 (55 mín. pr. þáttur) |
6 |
6 |
0.4% |
Stakar sjónvarpsmyndir (58 mín.) |
4 |
4 |
0.3% |
Leikið barnaefni (28 mín. pr. þáttur) |
24 |
12 |
0.8% |
Íslenskar bíómyndir |
3 |
5 |
0.3% |
Íslenskar stuttmyndir |
10 |
3 |
0.2% |
SAMTALS |
89 |
48 |
3.2% |
Þessi uppstilling myndi að sjálfsögðu gjörbylta íslensku sjónvarpi. Hún myndi t.d. þýða að leikið íslenskt efni yrði í Sjónvarpinu að meðaltali á þriggja daga fresti á vetrardagskrá. Auðvelt væri jafnframt að halda sama hlutfalli með endursýningum á sumardagskrá.
Töflur 2-4 eru settar saman fyrst og fremst til vangaveltna og viðmiðunar. Kostnaður við að uppfylla þessar „óskir“ er líklega meiri en svigrúm leyfir á þessu stigi. Hinsvegar væri mjög fróðlegt að sjá einhverskonar áætlanir í þessa átt frá Sjónvarpinu á næstunni, sem þannig fælu í sér ákveðna stefnumörkun og framtíðarsýn.
(Því skal haldið hér til haga að eðli málsins samkvæmt er barnaefni ekki inná kjörtíma, en það mun vera um 550 klst. á ári, ýmist upprunaleg framleiðsla Sjónvarpsins eða talsett efni.)
Það sem ég velti fyrir mér er hvaðan koma peningarnir til þess að auka þessa framleiðslu? Svo virðist sem miljarð hafi vantað í fyrra til að reka sjónvarpið. Og þá er nauðsynlegt að vita- hverjir voru dýrustu liðirnir- áður en óskalistinn er settur fram. Ég óttast að loforðið um aukna íslenska framleiðslu sé sýnd veiði en ekki gefin. Tæknibúnaður í RÚV þarfnast meira eða minna endurnýjunar, aðbúnaður safns er í ólestri osfrv. Listi þinn annars ágætur nema íslenskar bíómyndir mættu falla út því miðað við þróunina erlendis hverfa þær sennilega fljótlega inní einhvers konar banka þar sem fólk kaupir sér ódýran aðgang og kannski verður svo um allt framleitt efni.
Takk fyrir skrifið María. Framleiðslan verður aukin, um það snýst allt málið. Er ekki trúaður á að Páll hafi þegið starfið til að endurnýja tækjabúnað. Hann segir enda í blöðunum í dag að reksturinn verði kominn í jafnvægi á næsta ári. Þá er bættur aðbúnaður safnsins tekinn fyrir í þjónustusamningnum. En stóra spurningin er, eins og þú bendir réttilega á, hvaðan koma peningarnir? Og einnig: hvað á að gera fyrir það fé sem til umráða er? Grein mín er innlegg í þá umræðu. Efstaleitið hefur væntanlega gert sínar áætlanir og væri gott að fá ávæning af þeim sem fyrst. Semsagt: hvað nú RÚV?