baird TVÚff… RÚV-frumvarpið! Þingþjarki lokið sem betur fer og þó fyrr hefði verið. Í öllum hamaganginum og fjasinu um aukaatriði sem geysað hefur að undanförnu um blessað Ríkisútvarpið er nauðsynlegt að minna enn og aftur á eftirfarandi: Eina réttlætingin fyrir tilvist RÚV er fjölbreytt framboð á góðri innlendri dagskrá. Allt annað er aukaatriði. Sjónvarp er dagskrá og sjónvarp á vegum ríkisins er íslensk dagskrá.

Allt tal um hugsanlega sölu RÚV er útí loftið. Ríkisútvarp verður ekki selt. Þá er það ekki lengur ríkisútvarp með þeim skyldum og réttindum (t.d. skylduáskrift) sem fylgja slíku apparati. Hinsvegar er hægt að leggja RÚV niður – en það væri auðvitað menningarlegt stórslys á epískum skala. Afhverju? Jú, þrátt fyrir að það gæti gert svo miklu betur, býður RÚV okkur uppá margskonar efni sem auðgar okkur á margvíslegan hátt og einkaaðilar myndu aldrei bjóða fram. RÚV er einnig á vissum stundum sameiningarafl á þann hátt sem einkaaðili getur aldrei orðið. Síðast en ekki síst má nefna að tilvist RÚV með sinni breiðu dagskrárstefnu býr til viðmið og aðhald fyrir einkastöðvarnar. Þar á samkeppnin að liggja – hin dýnamíska togstreita sem leysir krafta úr læðingi. Ekki í keppni um auglýsingar milli ríkisstöðvar og einkastöðva.

Að hætta starfrækslu RÚV er því örugg leið til að gera menningu okkar fátækari og enn einsleitari en hún þó er. Þvert á móti þarf að efla RÚV og gera því betur kleift að gegna hlutverki sínu.

Yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar skilur þetta og vill hafa RÚV áfram. Þeir fáu sem vilja það ekki gegna því ágæta hlutverki að veita tilvist þess aðhald.

Hvað vantar í frumvarpið?

Þetta blessaða frumvarp – sem sumpart er í rétta átt – hefur þó yfir sér dálítið klasturslegan blæ. Það vantar í það dálitla djörfung. Það lyktar pínulítið af því að menn eru ekki alveg 100% með sjálfum sér í málinu. Það sést t.d. á því að vandræðagangurinn er búinn að vera aðeins of mikill. Stjórnarandstaðan finnur þetta og hamrar járnið en eyðir þó kröftum sínum um flest í erindisleysuna. Þar skortir frjóar hugmyndir, í staðinn leggur af málflutningnum fnykur þeirra sem óttast framtíðina.

Hinsvegar eru rökin um afnám auglýsinga í RÚV sterk, en þeim hefur því miður ekki verið sinnt. Sjálfur hef ég verið þessarar skoðunar lengi og fagnaði því mjög þegar Páll Magnússon talaði á sömu nótum þegar hann tók við embætti útvarpsstjóra. Nýlega áréttaði hann þessa skoðun sína. Þetta er eitt af því sem hefði átt að vera í núverandi frumvarpi. Að svo sé ekki, veikir það. Slík aðgerð, sem vissulega er róttæk, er ekki aðeins eðlileg hvað RÚV varðar, heldur myndi hún koma gríðarlegri hreyfingu á markaðinn.

Burtséð frá pólitík dagsins – hverjir eru í hvaða liði þennan daginn – standa prinsippin eftir. Ríkisvaldið á að bjóða uppá almannaþjónustu og setja leikreglur á markaði. Það er ekki hlutverk þess að vera einkaaðilum fjötur um fót. Dagskrá RÚV og dreifing hennar fellur hinsvegar skýrt undir almannaþjónustuhlutverk ríkisvaldsins. Hana á að fjármagna án auglýsinga – utan markaðarins, því eins og Páll benti á þegar hann tók við, getur mælikvarði á velgengni almenningssjónvarps „ekki verið sá að þú eigir alltaf að hámarka áhorfenda- eða hlustendafjöldann. Ef það á stöðugt og alltaf að taka mið af áhorfendafjölda þá sitja menn uppi með fjölmiðil sem er nákæmlega eins og afþreyingarstöðvarnar.“ 

Ég skil hinsvegar útvarpsstjóra vel að berjast með oddi og egg fyrir framgangi frumvarpsins því hann telur að það muni gera RÚV kleift að losna úr spennitreyjunni. Það er sjálfsagt rétt að að töluverðu leyti, en hefði ekki verið skynsamlegra að ganga alla leið og taka RÚV af auglýsingamarkaði, eins og Páll svo greinilega styður? Hefði það ekki t.d. dregið mjög úr gagnrýnisröddum varðandi stærð og fyrirferð RÚV á markaðinum? Það er of ódýrt að afgreiða rök forsvarsmanna einkastöðvanna sem einhverja fýlu. Þeir hafa nokkuð til síns máls.

Kyrrstöðuhugsun Samtaka auglýsenda

Rök Samtaka auglýsenda (SAU) frá 2005 um nauðsyn þess að RÚV birti auglýsingar eru ekki aðeins léttvæg heldur lýsa þau furðulegum viðhorfum hjá fólki sem ætti að vera umhugað um hið frjálsa framtak og þann frábæra eiginleika markaðarins að laga sig að aðstæðum hverju sinni. Aðaláhyggjur þeirra snúast um erfiðara aðgengi auglýsenda að almenningi. Þannig muni auglýsingaverð hækka vegna minna framboðs á auglýsingaplássi og vöruverð einnig, því auknum auglýsingakostnaði verði velt útí verðlagið. Einnig muni verða erfiðara fyrir almenning að nálgast upplýsingar um vöru og þjónustu.

Ja hérna hér. Hefur þetta góða fólk aldrei heyrt talað um samkeppni? Gera SAU virkilega ráð fyrir því að afnám auglýsinga á RÚV muni þýða kyrrstöðu á markaði? Að einkastöðvarnar muni bara sleikja útum, núa saman lófum og rétta þá svo fram án nokkurrar viðleitni til að verðskulda viðskiptin? Halda SAU að fyrirtækin í landinu muni einfaldlega láta valta yfir sig í þessum efnum? Hafa þau enga trú á því að forsvarsmenn fyrirtækja muni leita annarra leiða ef einkastöðvarnar keyra upp verðlagningu? Gera þau þá einnig ráð fyrir að einkastöðvarnar stundi um það samráð, þvert á lög? Ríkir ekki hörð samkeppni á gervöllum auglýsingamarkaðinum? Er hann ekki jafnframt í geysilega örri þróun með tilkomu nýrra miðla og nýrra möguleika? Hvaða einkennilega lopapeysulega vantrú er þetta á markaðnum hjá sjálfum Samtökum auglýsenda? Eru þau gengin í Vinstri-græna?

Hugsað út fyrir rammann

RÚV á að fara af auglýsingamarkaði og einbeita sér að íslenskri dagskrá á breiðum grundvelli. Ég er í raun að tala um BBC/DR/NRK/SVT-módelið. Ég tel líka að skoða mætti alvarlega hvort ekki væri farsælast að gera RÚV að „útgáfusjónvarpi“, sem léti framleiða alla sína dagskrá utanhúss. Slíkt myndi auka mjög samkeppni á framleiðslumarkaði og leiða til aukinna gæða dagskrár.

Ef menn vilja svo hugsa út fyrir hinn þrönga ramma væri gaman að skoða þá hugmynd að bjóða rekstur stofnunarinnar út.

Einkaaðila yrði þá fengið það verkefni skv. útboði að reka apparatið samkvæmt fyrirfram skilgreindum – og mælanlegum – útlistunum (þ.e. þeim sem þegar er að finna í núgildandi lögum og nýja frumvarpinu um skyldur RÚV – þ.e. hlutleysi, vettvangur lýðræðislegrar umræðu, menningarhlutverk, landsdreifing o.sv.frv.). Sá sem byði lægst og um leið besta pakkann (þ.e. efnishugmyndir) fengi giggið og sjálfstæður eftirlitsaðili á vegum hins opinbera myndi fylgjast grannt með að ákvæði samningins væru uppfyllt (sbr. Ofcom í Bretlandi).

Slík stöð myndi að mestu innihalda innlenda dagskrá (og yrðu skýrar skilgreiningar í samningi um hlutfallslega skiptingu efnisflokka). Jafnframt myndi slíkri stöð vera skylt að láta framleiða lungan af sinni dagskrá utanhúss til að forða henni frá því að eiga markaðinn sjálf og efla um leið samkeppni á framleiðslumarkaði. Ekki er ólíklegt að ætla að einkaaðili (sem hefði þá gulrót að geta endurnýjað samninginn í fyllingu tímans) myndi standa sig harla vel bæði í dagskrárframboði og rekstri. Góð frammistaða myndi einfaldlega þjóna viðskiptalegum hagsmunum viðkomandi.

Um leið og RÚV hyrfi af auglýsingamarkaði sætu einkastöðvar að þeirri köku með tilheyrandi tekjuöflunarmöguleikum. Ástæðulaust væri að afhenda þeim silfrið án endurgjalds. Það gæti t.d. falist í útboði á útsendingarleyfum til ákveðins tíma þar sem þeir aðilar hrepptu hnossið sem byðu fram mest sannfærandi innlenda dagskrárpakkann, auk gjalds sem fjármagna myndi hið íslenska Ofcom – sem jafnframt sæi um að fylgjast með frammistöðu einkastöðvanna og vera vettvangur fyrir umkvartanir og athugasemdir almennings.

Slíkar stöðvar eiga auðvitað annað erindi við áhorfendur en RÚV og útboðið myndi taka mið af því. Þeim yrði jafnframt skylt að kaupa efni sitt frá sjálfstæðum framleiðendum. Íslenskar sjónvarpsstöðvar yrðu því fyrst og fremst útgefendur – dreifendur efnis, ekki beinir framleiðendur þess, en hefðu að sjálfsögðu hið ritstjórnarlega vald.

Þetta kallast samkeppni. Það fyrirbrigði hefur nefnilega þá tilhneigingu til að laða fram það besta sem í boði er.

Dýnamískur umsnúningur á ástandinu eða hvað?