Var að klára að lesa skáldsöguna Tryggðarpantur eftir Auði Jónsdóttur og í stuttu máli er hún afbragð. Hef ekki lesið Auði áður en hef nú reynt á eigin sinni að konan er afspyrnu fínn penni. Hafði þó fengið ávæning af því áður. Sagan gerist í óræðri vestrænni stórborg og fjallar um Gísellu Dal, arfríkan iðjuleysingja, sem uppgötvar að arfurinn er tæmdur og til að halda fína húsinu í miðborginni ákveður hún að taka inn leigjendur. Þrjár konur af erlendu bergi brotnar verða fyrir valinu og hefst þá ballið. Konurnar samþykkja að lúta húsreglum Gísellu og í fyrstu eru þær blanda af almennri skynsemi og dálitlum einkennilegheitum. Konurnar (og lesandinn) láta gott heita. Í fyrstu segi ég, því ein klausan er á þá leið að Gísella áskilur sér rétt að bæta fleiri reglum við þegar þurfa þykir. Jafnframt kveður önnur regla á um að Gísella hafi jafnan síðasta orðið þegar misklíð kemur upp (útúrdúr: þessi regla kallast í kvikmyndabransanum „final cut“ og er ávísun á vandræði nema gagnkvæmur skilningur ríki á því að hún verði helst ekki brúkuð).

Rek ekki þráðinn frekar en vil leggja áherslu á að Auði tekst að halda manni rígnegldum við efnið og það þrátt fyrir að aðalpersónan sé nokkurnveginn með öllu óþolandi í stjórnsemi sinni, sjálfhverfu og tilætlunarsemi. Hún vill vel, það vantar ekki, en telur gæfulegast að konurnar dansi eftir hennar takti og lúti um leið höfði í djúpu þakklæti fyrir leiðsögnina – að ekki sé minnst á góðmennskuna. Verst (og um leið best) er að Auði tekst að leiða mann beina leið inní hugarheim þessarar kvenpersónu, sem gert hefur það að köllun lífs síns að forðast að takast á við nokkurn skapaðan hlut sem máli skiptir. Maður verður semsagt skelfilega samsekur og kvelst bæði yfir passívri frekjunni í sjálfum sér (þ.e. Gísellu) og ótuktarskapnum í leigjendunum sem láta misvel að stjórn og láta jafnvel stundum hjá líða að þakka fyrir sig með nægilega tilhlýðilegum hætti.

Það er langt í frá létt verk að skapa áhuga í höfði lesandans á sögu um fjórar manneskjur (+ unga stelpu) sem þurfa að láta sér lynda sama húsnæðið. Auður gerir þó miklu meira en það, sagan er sannkallaður síðufléttir og maður er meira og minna með lífið í lúkunum út bókina. Dauðlangar að ljóstra upp um endinn sem er algjör killer, en læt mér nægja að hvetja þig til að lesa þessa bók og það eigi síðar en strax.