Göngufélagið 31.12.2005

Gönguklúbbur Gríms á gamlársdag 2005.

 Mér þykir Davíð Þór vinur minn gera mér óþarflega hátt undir höfði í pistli á bloggi sínu þar sem hann segir ágæta öpunarkenningu sína lúta í duftið gagnvart því sem hann kallar „Ásgrímsku“. Kenninguna hafði ég viðrað í léttu spjalli okkar félaga á Súfistanum um daginn, eftir eina af okkar vikulegu kraftgöngum í Hafnarfirði, en hún gengur í stuttu máli útá það að ekkert er til nema það sem þú sérð eða skynjar á annan hátt hverju sinni (sjá frekari útleggingar í pistli Davíðs). Þó að ég sverji af mér djúpa trúarlega sannfæringu í þessum efnum fylgir öllu gamni nokkur alvara og þykist ég skynja að gestir á síðu Davíðs komi auga á þetta, enda bæði búnir að blanda Schopenhauer og The Matrix í málið. Takk fyrir félagsskapinn segi ég en vil þó benda á uppruna kenningarinnar ef það skyldi verða einhverjum til fróðleiks og skemmtunar.

Hún varð semsagt til eftir nokkra naflaskoðun og mér til málsvarnar en um leið sjálfsháðungar. Þannig er að ég ber nokkra ábyrgð sem foringi Gönguklúbbsins Gríms. Klúbbur þessi þrammar sér til heilsubótar og skemmtunar á laugardögum í Hafnarfirði og nágrenni. Einn laugardag s.l. vetur lá ég í flensu og mátti mig ekki hræra. Sendi ég því SMS á hópinn þar sem sagði: „Engin ganga í dag, ég er lasinn“.

Hlaut ég nokkra gagnrýni og háðsglósur frá félögum mínum fyrir þá fáheyrðu ósvífni og sjálfhverfu að telja sem svo að fyrst ég væri ekki til að leiða hópinn yrði ekkert af göngu. Ekki tókst þeim þó að útskýra hversvegna enginn ganga hefði farið fram þann daginn.

Vörn mín fólst í hinni þrautreyndu taktík að slá vopnin úr höndum gagnrýnendanna með því að beita sjálfsháði: þarna hefði ég orðið ofurseldur þeirri algengu hugmynd að ég væri miðja alheimsins og að ekkert myndi – eða væri að – gerast nema ég kæmi á einhvern hátt að málinu. 

Athyglisvert hefur mér þótt að uppgötva hvernig ýmsir úr hópnum hafa fallist á ágæti þessarar kenningar og gert hana að sinni – meira að segja notað hana sér til varnar í einhverjum tilfellum.

Hún er enda handhæg mjög.

En líklega röng.

Fyrsta minning mín um þessa sýn á tilveruna er frá 1972. Þá var ég átta ára og á leið til Norðurlandanna og Eystrasaltslanda á Jökulfellinu þar sem faðir minn vann þá sem loftskeytamaður.

Einn daginn á útstíminu, þar sem ég lá á kýrauganu í káetunni og horfði dáleiddur á marglytturnar fljóta á sjónum, hvarflaði að mér sú hugsun að ég hefði enga tryggingu fyrir því að útlönd væru í raun og veru til.

Ég hafði nefnilega aldrei séð þau sjálfur.

Vissulega hafði ég heyrt þeirra getið, séð þau í sjónvarpi og bíómyndum, lesið bækur og jafnvel hitt einhverja sem höfðu farið og komið aftur með sögur.

Ég hafði jafnvel hitt útlendinga. Sumir þeirra voru meira að segja skyldir mér.

En ég var ekki sannfærður.

Ekki leið á löngu þar til ég fékk svör við þessari vangaveltu. Útlönd urðu til fyrir mér. Og sum útlönd eru varla lengur útlönd í huga mínum. Stórir hlutar af Lundúnaborg eru t.d. bara hverfi í Reykjavík sem ég heimsæki svona af og til.

Ég hef einnig sannfærst um tilvist útlendinga. Sérstaklega eftir að hafa kynnst hundruðum slíkra frá öllum heimshornum og átt við þá hin fjölbreytilegustu samskipti. Sumum hef ég meira að segja tengst afskaplega nánum böndum. Ég á vini og vinkonur á Bretlandseyjum, Evrópu vestur og austur, Norðurlöndum, Ameríku, Austurlöndum mið og fjær…

Ég trúi því að þetta fólk sé til. Ég trúi því að það sé að fást við veruleikann á hverjum degi án þess að ég sé viðstaddur.

En ég trúi líka á eftirvæntinguna. Að standa á barmi uppgötvunarinnar.

Ein lítil saga í því sambandi að lokum:

Eitt sinn var ég í matsal The National Film and Television School í Bretlandi þar sem ég var við nám. Ég sat með skólabróður mínum Khaled El Hagar, sem er Egypti og leikstýrir nú bíómyndum.

Þagnarbil hafði myndast í spjalli okkar og Khaled tekur upp Camel sígarettupakkann minn. Virðir hann fyrir sér með fjarrænt blik í augum. Á pakkanum blasir við kameldýr og nokkrir pýramídar í baksýn. Eftir nokkra stund andvarpar Khaled og segir svo með tregablandinni röddu:

„Home“.

Ég hváði. Fyrir mér var skreytingin á Camelpakkanum eins og hver önnur mýtólógía. Pýramídar voru bara til í exótískum ævintýrum og þar sem ég hafði aldrei séð þá gat ég ekki verið fyllilega viss um að þeir væru í raun og veru til.

En þá kom í ljós að fyrir Khaled voru pýramídarnir ekki bara eitthvað egypskt minnismerki eða túristastopp. Nei, hann hafði alist upp í útjaðri Kairó og þeir blöstu við út um stofugluggann hjá honum. Í hans huga voru þeir svona eins og Lækurinn eða Hamarinn fyrir okkur Hafnfirðinga.

Eins manns ævintýri eru annars manns heimahagar.

Svona er nú veröldin.