afmæliskakaHamingjuóskir til Sjónvarpsins, á fjörtíu ára afmælisdaginn, 30. september. Mér er hlýtt til þessarar stofnunar og vil veg hennar sem mestan. Það er mín tilfinning að flestir sem starfa í kvikmynda- og sjónvarpsgeiranum hugsi á svipuðum nótum. Stærðar sinnar og eðlis vegna er Sjónvarpið á vissan hátt akkerið í bransanum. Við það hafa ávalt verið bundnar miklar vonir þó á stundum virðist sem langt sé í að þær rætist að einhverju leyti. Brúnin lyftist því nokkuð s.l. fimmtudag þegar menntamálaráðherra og útvarpsstjóri kynntu drög að þjónustusamningi við RÚV þar sem hlutverk og skyldur stofnunarinnar eru útlistaðar með skýrari hætti en áður hefur verið. Í inntaki þessa plaggs felast vísbendingar um betri tíð, en allt veltur þó á því hvernig um vélast.

Vorið 2004 flutti ég erindi á stjórnmálafundi í Hafnarfirði þar sem málefni RÚV voru til umræðu. Undir yfirskriftinni „Til hvers er RÚV?“ færði ég rök fyrir því að eina raunverulega réttlætingin fyrir ríkisrekstri sjónvarpsstöðvar með skylduáskrift væri öflugt framboð á innlendu efni.

Í grunninn var erindið nokkurskonar samantekt á því sem ég hafði hugsað, rætt og ritað um Sjónvarpið undangengin áratug eða svo. Í því kom m.a. fram eftirfarandi:

  • Skilgreina þarf hlutverk RÚV með skýrari hætti, með sérstökum samningi við ríkisvaldið t.d. til tíu ára í senn, þar sem meðal annars yrði kveðið á um skyldur stofnunarinnar gagnvart framboði hverskyns innlends sjónvarpsefnis, leiknu sem öðru.
  • Hlutfall innlends efnis fari í 75%.
  • Þetta myndi þýða um 50% aukningu innlends efnis.

Nýbirt drög að þjónustusamningi eru nokkuð í áttina að þessum tillögum og út af fyrir sig er það fagnaðarefni umfram óbreytt ástand. Og vissulega er ánægjulegt að Sjónvarpið hyggst skuldbinda sig til að verja nær allri aukningu dagskrárfjár til innkaupa frá sjálfstæðum framleiðendum. Er þar um að ræða 150% aukningu á samningstímanum. Hljómar vel en hafa verður í huga að núverandi upphæð sem varið er til kaupa á þessu efni árlega er lág (rúmar 100 milljónir) og nýtist ekki sem skyldi þegar hverju og einu verki er skammtað úr hnefa.

Stóra spurningin er hvernig þetta verður í framkvæmd. Hverskonar efni hyggst Sjónvarpið sækjast eftir? Mun Sjónvarpið halda áfram þeirri stefnu sinni að kaupa sem flestar mínútur fyrir sem minnstan pening, eða hyggjast menn koma að fjármögnun sjónvarpsefnis með meira sannfærandi hætti?

Magn eða gæði? Í hvora áttina munu áherslur verða? Sjónvarp er ekkert nema dagskráin sem þar er að finna.

Engin spurning er að skorturinn á leiknu sjónvarpsefni er hvað tilfinnanlegastur þegar horft er yfir sviðið. Það væri því mjög ánægjulegt að sjá yfirlýsingu frá útvarpsstjóra sem innihéldi kjarkmikla, en um leið raunhæfa, sýn á eflingu slíks efnis á samningstímanum. Í yfirlýsingunni yrði að finna breiða og almenna stefnumörkun, en hana mætti krydda með ákveðnum dæmum sem gæfu til kynna þau viðmið sem útvarpsstjóri vill setja.

Best væri auðvitað að þessi atriði yrði að finna í endanlegum þjónustusamningi. En í öllu falli vil ég skora á útvarpsstjóra, mann sem nýtur almenns trausts og miklar vonir eru bundnar við, að taka af skarið með afgerandi hætti hvað varðar framleiðslu leikins sjónvarpefnis á næstu árum.

Stofnunin sem hann stýrir á að leiða. Setja fram hugmyndir, markmið og viðmið – blása mönnum baráttuanda í brjóst. Þessi bransi snýst nefnilega fyrst og síðast um innblástur þegar öllu er á botninn hvolft.

Við erum tilbúin að hlýða kallinu – taka áskoruninni. Og þjóðin bíður – spennt við skjáinn.