Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík (AKÍR) hefst 28. september og stendur í ellefu daga. Dagskráin var borin í hús í dag og við lestur hennar kemur í ljós að hátíðin er að springa út eftir eðlilegan reynslutíma. Ég minnist þess ekki að áður hafi verið boðið uppá jafn fjölbreytta og sannfærandi kvikmyndahátíð á Íslandi. Ekki aðeins býðst breitt úrval kvikmynda úr mörgum ólíkum áttum heldur er einnig að finna þarna margskonar námskeið, fyrirlestra og aðra viðburði, auk þess sem sérstakur fengur er að gestum hátíðarinnar.Alvöru kvikmyndahátíð er sterkt menningarlegt kennileiti og ber með sér spennandi og framandi andrúmsloft. Hún nær langt út fyrir sjálfa sig, ef svo má að orði komast, varpar hughrifum og andrúmslofti sínu yfir það samfélag sem hýsir hana. Alvöru kvikmyndahátíð er þannig líka hátíð í bæ.

Þetta finnur maður sterkt t.d. í Berlín, London eða Edinborg, dagana sem þær hátíðir standa.

Fari fram sem horfir verður Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík hápunktur ársins hvað kvikmyndamenningu okkar varðar. Alltof lengi höfum við búið við afar fábreytta og einsleita kvikmyndaflóru. Vonir mínar standa til þess að nú sé komið að ákveðnum vendipunkti, því ekki aðeins lítur vel út með þriðju AKÍR-hátíðina, heldur hafa aðstandendur hennar lagt grunninn að reglulegri starfsemi bíóteks í Tjarnarbíói. Nái Hrönn Marinósdóttir og samstarfsfólk hennar að halda þessum dampi uppi, erum við að horfa á breytt og betra kvikmyndamenningarlegt landslag hér innan fárra ára.

Allir græða á öflugri kvikmyndahátíð, sem og breiðara framboði kvikmynda árið um kring. Áhorfendur hafa úr fleiru að velja til upplifunar og uppgötvunar, borgin eignast sterkt menningarlegt kennileiti sem mun draga frekari athygli að henni (sbr. t.d. Iceland Airwaves) og kvikmyndahöfundar, núverandi sem verðandi, geta sótt þangað innblástur og samanburð, auk menntunar og fræðslu.

Glæstar vonir? Kannski, en vonirnar eru það eldsneyti sem þessi bransi okkar gengur fyrir.

Og talandi um bransann: það er alltaf áhættusamt að setja fram spádóma, en ýmis teikn eru á lofti um að framundan sé vaxtarskeið í íslenskri kvikmyndagerð; að vel líti út með uppskeruna á komandi misseri. Vísbendingar um þetta eru þegar komnar í ljós og framhaldið lofar góðu. Hvort tekið sé að hilla undir sumartíð skal ósagt látið að sinni, en það er eitthvað í vindinum…