Ágúst Guðmundsson leikstjóri og formaður Bandalags íslenskra listamanna, skrifar grein í Morgunblaðið 24. júlí þar sem hann hvetur til þess að leyfi til sjónvarpsútsendinga verði háð því að ákveðinn hluti dagskrár verði helgaður innlendu efni. Morgunblaðið fjallaði um grein Ágústs í leiðara daginn eftir. Að áliti blaðsins er óþarfi að skilyrða leyfi með þessum hætti þar sem núverandi lög séu fullnægjandi, en hinsvegar þurfi útvarpsréttarnefnd að fylgja þeim betur eftir. En er það nóg?

Í útvarpslögum stendur m.a. að „Sjónvarpsstöðvar skulu kosta kapps um að meiri hluta útsendingartíma sé varið í íslenskt dagskrárefni og annað dagskrárefni frá Evrópu. Með útsendingartíma er í þessu sambandi átt við heildarútsendingartíma sjónvarpsstöðva að frádregnum þeim tíma sem varið er til frétta, íþróttaviðburða, leikja, auglýsinga, textavarpsþjónustu og fjarsölu.“ (IV. kafli, 7 grein).
Morgunblaðið bendir á að „útvarpsréttarnefnd hafi eftirlit með því að sjónvarpsstöðvar uppfylli þessar skyldur sínar. Útvarpsréttarnefnd getur m.a. áskilið að faggilt skoðunarstofa staðfesti skýrslur sjónvarpsstöðva um hlut íslenzks og evrópsks efnis og efnis frá sjálfstæðum framleiðendum.“

Jafnframt segir í leiðaranum:

„Staðreyndin er hins vegar sú, að útvarpsréttarnefnd hefur ekki sýnt sjónvarpsstöðvunum neitt aðhald að þessu leyti. Í Noregi birtir Mediatilsynet, sem er stofnun hliðstæð útvarpsréttarnefnd, árlega skýrslu þar sem farið er yfir hvernig sjónvarpsstöðvarnar standa sig í að framfylgja skilyrðum laga um dagskrárinnihald. Þær, sem ekki fara að lögum, fá aðvörun – og opinbera gagnrýni, sem þær verða að svara. Nú er rætt um að Mediatilsynet geti einnig beitt sjónvarpsstöðvar sektum, fari þær ekki að þeim skilyrðum, sem eru sett fyrir sjónvarpsleyfi þeirra.

Það liggur auðvitað í augum uppi að dagskrá flestra sjónvarpsstöðva á Íslandi uppfyllir engan veginn skilyrðið um að meirihluti dagskrár sé íslenzkt eða evrópskt efni. Þegar horft er á sumar þeirra er ekki einu sinni með mjög góðum vilja hægt að álykta að slíkt sé „kappkostað“, hvað þá að þær telji það hlutverk sitt að efla íslenzka tungu.

Er ekki orðið tímabært að halda sjónvarpsleyfishöfum við efnið?“

Vissulega má taka undir þetta. Það er í raun illskiljanlegt hversvegna útvarpsréttarnefnd hefur ekki fyrir löngu tekið fastar á þessum málum. Framboð á íslenskri dagskrá sjónvarpsstöðvanna er ennþá alltof lágt og framboð bandarísks sjónvarpsefnis fáránlega stór hluti af dagskrá flestra stöðva, með tilheyrandi afleiðingum fyrir okkar samfélag.

Þetta ástand er okkur ekki samboðið. Vissulega er margt gott sjónvarpsefni sem berst frá Ameríku og sjálfsagt og eðlilegt að gott framboð sé af því, en eins og svo margoft hefur verið hamrað á verðum við að taka okkur verulega á hvað innlenda dagskrá varðar.

Kveða núverandi útvarpslög nægilega fast að orði? Hvað með klausuna „sjónvarpsstöðvar skulu kosta kapps um að meiri hluta útsendingartíma sé varið í íslenskt dagskrárefni“?

Hversvegna ættu þær aðeins að „kosta kapps“? Hversvegna er einfaldlega ekki kveðið skýrt á um þetta atriði? Má ekki orða þetta sem svo: „sjónvarpsstöðvar skulu verja meiri hluta útsendingartíma í íslenskt dagskrárefni og annað dagskrárefni frá Evrópu.“

Að sjálfsögðu eru fréttir, íþróttir og ýmiskonar „smælki“ undanskilið í öllum slíkum hlutfallsútreikningi, enda er það venjan í Evrópu og ákvæði um slíkt í núverandi lögum.

Hér þarf aðeins örlitla lagabreytingu til og útvarpsréttarnefnd sem hefur vilja til að sýna aðhald og vald til að beita sér ef þörf er á.

Íslenskt dagskrárefni er það sem íslenskir áhorfendur vilja helst, það hefur ávallt sýnt sig í könnunum á sjónvarpsáhorfi. Að sjálfsögðu eiga íslenskar sjónvarpsstöðvar að byggja dagskrá sína á íslensku efni að meirihluta. Í rauninni ætti það að vera svo sjálfsagt að sérstök lagasetning um slíkt þyrfti ekki að koma til.

En það er önnur saga.