it's a wonderful lifeÍ nýbirtri könnun sem American Film Institute stóð fyrir meðal þarlendra leikstjóra, gagnrýnenda og annarra innanbúðarmanna, kemur fram að mynd Frank Capra, It's a Wonderful Life, er helst til þess fallin að vekja mönnum innblástur og von. Þetta kemur ekki sérlega á óvart enda myndin eiginlega hluti af jólahaldi Ameríkana og raunar margra annarra þjóða, til langs tíma. Einmitt þess vegna er dálítið merkilegt að hún skuli enn talin svona áhrifarík. Hversvegna heldur hún enn áhrifamætti sínum?

It's a Wonderful Life er sextíu ára gömul mynd og á sér skrykkjótta sögu. Þetta var fyrsta mynd Capra eftir seinni heimsstyrjöldina og átti að marka nýtt upphaf á ferli hans, sem hafði verið sérlega glæstur á fjórða áratug síðustu aldar. Hún reyndist hinsvegar upphafið að endalokunum hjá þessum merka leikstjóra. Myndin floppaði all rækilega í upphafi og lá lengi í gleymsku og dá. Það var svo á sjöunda áratugnum að sjónvarpsstöðvar í Ameríku hófu að sýna hana fyrir jólin og í kjölfarið varð hún að "klassík".

Og líkt og oft vill verða með helgimyndir hafa margir orðið til þess að vega að henni með ýmsu móti. Helstu aðfinnslurnar snúast um yfirgengilega væmni, fals og hræsni. En einhvernveginn er það svo að þessar ásakanir hafa eiginlega engin áhrif haft á sess hennar í huga hins breiða fjölda.

Málið er einfaldlega að í ákveðnu samhengi – jólasamhenginu – svínvirkar hún. Kannski er galdurinn fólginn í því hvernig hún kemur að áhorfandanum. Ólíkt flestum fjögurra vasaklúta myndum fær hún fólk til að vikna yfir gleðistundum persónanna en ekki hinum harmrænu. 

It's a Wonderful Life er hjartnæm og magísk fantasía um örvæntingafullan mann sem í gegnum guðlega forsjón fær tækifæri til að sjá hvers virði hann er samfélagi sínu. Capra svífst í raun einskins til að telja okkur trú um mikilvægi samlíðunar og sannfæring hans er slík að myndin er án efa hans besta verk, sem og James Stewarts í aðalhlutverkinu. Í myndinni takast á draumar gegn vonbrigðum, réttlæti gegn kúgun, vonin gegn svartnættinu og jafnvel tíminn sjálfur leggur lykkju á leið sína svo að söguhetjan George Bailey megi finna sjálfan lífsins tilgang og fyrirheit.

Í grunninn snýst sagnalist í öllum sínum myndum um sáluhjálp. Í heimi myndarinnar er heiti hennar löðrandi írónía allt þar til í lokin þegar kraftaverkið gerist; veröldin endurfæðist í nýju ljósi. Þurfum við ekki flest á slíku að halda svona af og til?