The Da Vinci Code posterJæja, var að sjá The Da Vinci Code. Skrýtin skepna. Þar sem myndin hefur fengið upp til hópa neikvæð viðbrögð átti maður ekki von á góðu, en hún er alveg þokkaleg sem reyfari. Hún er ógnarlöng en leið samt fljótt og vel. Í raun hefði ég viljað hafa hana miklu lengri. En það var ekki vegna þess að persónurnar væru svona athyglisverðar. Þær gera í raun lítið annað en að flytja okkur munnlegar útskýringar og vangaveltur (flestar reyndar mjög fróðlegar), nokkuð sem handritshöfundar reyna að forðast eins og pestina í lengstu lög, meðan höfundar bóka geta auðveldlega leyft sér slíkt. Hinsvegar verður að segjast að það sem myndin fjallar um er afar spennandi og áhugavert.

Strúkturinn snýst um fjársjóðsleit – fjársjóðurinn sem um ræðir er útlegging kristninnar og þar með vestrænnar menningar síðustu tvö þúsund ára eða svo. Undirliggjandi eru hinar klassísku spurningar – hverjir skrifa söguna og hversvegna? Þær bjóða auðvitað uppá mikið svigrúm fyrir hverskyns spekúlasjónir og skemmtilegar samsæriskenningar. Það er yfirleitt gaman að slíku, sérstaklega þegar velt er vöngum yfir einhverju sem ráðandi öfl vilja ekki heyra minnst á.

Það er að sjálfsögðu ekki nema eðlilegt og sjálfsagt að spyrja sem allra óþægilegastra spurninga um valdamaskínur eins og kirkjuna. Þar með er ekki endilega gefið að mysan á þeim bænum sé algerlega maðksmoginn.

Og þó. Kirkjan er jú mannanna verk.

Ætla allavega að drífa mig að lesa The Bloodline of the Holy Grail sem Friðrik vinur minn lánaði mér fyrir nokkru síðan. Meira sjálfsagt síðar.