Jæja, var að sjá The Da Vinci Code. Skrýtin skepna. Þar sem myndin hefur fengið upp til hópa neikvæð viðbrögð átti maður ekki von á góðu, en hún er alveg þokkaleg sem reyfari. Hún er ógnarlöng en leið samt fljótt og vel. Í raun hefði ég viljað hafa hana miklu lengri. En það var ekki vegna þess að persónurnar væru svona athyglisverðar. Þær gera í raun lítið annað en að flytja okkur munnlegar útskýringar og vangaveltur (flestar reyndar mjög fróðlegar), nokkuð sem handritshöfundar reyna að forðast eins og pestina í lengstu lög, meðan höfundar bóka geta auðveldlega leyft sér slíkt. Hinsvegar verður að segjast að það sem myndin fjallar um er afar spennandi og áhugavert.
Strúkturinn snýst um fjársjóðsleit – fjársjóðurinn sem um ræðir er útlegging kristninnar og þar með vestrænnar menningar síðustu tvö þúsund ára eða svo. Undirliggjandi eru hinar klassísku spurningar – hverjir skrifa söguna og hversvegna? Þær bjóða auðvitað uppá mikið svigrúm fyrir hverskyns spekúlasjónir og skemmtilegar samsæriskenningar. Það er yfirleitt gaman að slíku, sérstaklega þegar velt er vöngum yfir einhverju sem ráðandi öfl vilja ekki heyra minnst á.
Það er að sjálfsögðu ekki nema eðlilegt og sjálfsagt að spyrja sem allra óþægilegastra spurninga um valdamaskínur eins og kirkjuna. Þar með er ekki endilega gefið að mysan á þeim bænum sé algerlega maðksmoginn.
Og þó. Kirkjan er jú mannanna verk.
Ætla allavega að drífa mig að lesa The Bloodline of the Holy Grail sem Friðrik vinur minn lánaði mér fyrir nokkru síðan. Meira sjálfsagt síðar.
Á eftir að sjá myndina. Las bókina sem er mjög grípandi. D. Brown er alveg skelfilega lélegur penni, textinn svo klunnalegur að það er hreinlega hlægilegt. Það úir og grúir af setningum sem jaðra við að vera óskiljanlegar (ég las bókina á ensku) — og faktískt er ég ekki frá því höfundurinn þjáist af einhverri tegund af vægri málblindu. Samt var nú tiltölulega auðvelt að leiða þetta allt hjá sér vegna þess að sagan slær mann. Hinar hrikalegu vinsældir þessarar bókar eru svo alveg kapítuli út af fyrir sig.
Hér er mjög góð úttekt á myndinni, sú athyglisverðasta sem ég hef lesið. Mjög löng að vísu. Enda höfundurinn akademíker:
http://www.juancole.com/2006/05/davinci-code-as-parable-of-american.html
„The film is popular because it isn’t about Catholicism or France or some odd conspiracy theory centered on Mary Magdalene. It is popular because it is about the dilemmas of secular modernity.“
Myndin er tvímælalaust áhugaverð. Við höfum tekið saman heilmikið efni um atburði, stef og kenningar sem myndin vísar til – kannski má hafa eitthvert gagn af því.