Sylvía NóttSylvía Nótt er án nokkurs efa barnabarn annarrar stjörnu, Vailu Veinólíno úr Tinnabókunum, sem eitt sinn sagði þegar hún vildi hitta Kolbein kaftein: "Listin stígur niður af himnum til lágstéttanna." Þetta fjölleikahús er að taka á sig afar athyglisvert form þessa dagana. Þeir sem halda um strengi kunna að byggja upp dramatík og stefna örugglega inní þriðja þáttinn, hápunkt leiksins. Ég vil halda því fram að eftir Eurovision verður engin Sylvía Nótt. Engir frekari þættir. Engin bíómynd. Engin frekari framkoma. Eftir Eurovision er þetta allt búið. Stjarnan mun þá stíga aftur til Valhallar eða líklega Ólympsfjalls (miklu styttra þangað frá Aþenu), þar sem hún er ekki af þessari jörð heldur skilaboð frá guðunum, sem aldrei þreytast á að sýna okkur dauðlegum fram á breyskleika okkar.  

Það rann svo upp fyrir mér fyrir ekki svo löngu að skilaboðin eru sömu tegundar og þau sem Ethan Hunt fær svo reglulega í Mission Impossible: "This message will self-destruct in (x) seconds".

Því það er nákvæmlega að gerast. Stjarnan er á hraðri leið að brenna upp. Og hvenær skín stjarna skærar en einmitt í sjálfu hrapinu?

Vísbendingarnar eru út um allt. Deilurnar í forkeppninni, almenn framganga Sylvíu gagnvart öðrum keppendum, fíaskóið á Essóstöðinni þar sem Ingvar E. og Lolla birtust í stað stjörnunnar, börnunum til mikilla vonbrigða og foreldrum til réttlátrar reiði, "fuck" málið, kjafturinn á Sylvíu í Aþenu og svo framvegis. Þetta á aðeins eftir að versna (batna).

Eurovision er aukaatriði í þessu öllu. Það vill bara svo til að keppnin er vettvangur stjörnunnar til að skína hvað skærast og framkvæma "grand exit" með stæl. Ef það hentaði væri þetta allt eins Garðyrkjukeppni á Flúðum. Sylvía Nótt er miklu stærra fyrirbrigði en Eurovision. Hún er vonin og þráin í hjörtum mannanna.

Sylvía Nótt hefur þegar unnið Eurovision. Hún mun halda áfram að vera sigurvegari svo lengi sem hún er hún sjálf.

Guðirnir þekkja sinn vitjunartíma og þessvegna mun stjarnan hverfa af sviðinu eftir 20. maí. Eftir lifir minningin – og gjöfin stærsta – spegilmynd af samtímanum, þér og mér.