Cars poster

Var að koma af fyrstu alvöru stafrænu kvikmyndasýningunni á Íslandi. Hún fór fram í Kringlubíói og í stuttu máli þá var þetta stórfínt. Kristalskýr og björt mynd. Eiginlega eins og að horfa á DVD, nema á stóru tjaldi. Nú er spurningin hvort maður sakni flöktsins. 24ra ramma á sekúndu. Þó að manni finnist allt eðlilegt þegar filmunni er rennt í gegnum sýningarvélina skynjar maður engu að síður flöktið, eiginlega í undirvitundinni. Auk þess finnur maður fyrir hægu rugginu í filmunni þar sem hún rennur áfram. Þetta er horfið með stafrænni tækni. Hverfur eitthvað annað líka?

Myndin var Cars frá Pixar. Dúndurskemmtileg, sæt froða sem aðeins Hollywood kann að búa til. Pixar er merkilegt kompaní og verður eiginlega helst jafnað við Disney gamla þegar hann var uppá sitt besta á fimmta áratugnum. Það er með ólíkindum hvað þeim tekst að setja saman skemmtilegar sögur og með einhverskonar barnslegri frásagnargleði. Um leið hefur maður séð þetta allt margoft
áður. Báðar Toy Story myndirnar eru snilld, Finding Nemo líka og Monsters Inc. Svo hafa þeir blásið keppinautum baráttuanda í brjóst; Shrek frá Dreamworks er fyrir mér toppurinn á þessari síðari gullöld teiknimynda sem við nú lifum.

Að þessu sögðu… söguþráðurinn minnti pínulítið á Doc Hollywood, ca. 15 ára gamla mynd með Michael J. Fox.